Innlent

Elín Hirst sækir um stöðu útvarpsstjóra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Umsóknarfrestur um stöðu útvarpsstjóra rennur út á miðnætti. Elín Hirst er ein umsækjenda.
Umsóknarfrestur um stöðu útvarpsstjóra rennur út á miðnætti. Elín Hirst er ein umsækjenda. vísir/vilhelm

Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi fréttstjóri sjónvarps á RÚV, hefur sótt um stöðu útvarpsstjóra.

Elín greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en umsóknarfresturinn rennur út á miðnætti.

Greint var frá því í dag að þær Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, blaðamaður og leikkona, og Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður og leikstjóri, hefðu sótt um stöðuna.

Þá gerði Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla hjá RÚV, ráð fyrir að sækja um en Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, hyggst ekki sækja um sem útvarpsstjóri.

Elín Hirst var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi á árunum 2013 til 2016. Hún býr að mikilli reynslu úr fjölmiðlum en samkvæmt æviágripi hennar á vef Alþingis hóf hún störf sem blaðamaður á DV árið 1984.

Hún starfaði svo frá árinu 1986 á fréttastofu Stöðvar 2 og var meðal annars fréttastjóri á árunum 1994 til 1996.

Árið 1998 færði hún sig yfir á RÚV og var þá fréttamaður í sjónvarpi. Hún var fréttaþulur á RÚV frá 1998 til 2010 og fréttastjóri sjónvarpsins frá 2002 til 2008. Frá 2008 til 2010 starfaði hún svo sem dagskrárgerðarmaður hjá stofnuninni.

Þá var hún einn af hugmyndasmiðum þáttanna Hvað höfum við gert? og sat í ritstjórn þáttanna sem sýndir voru á RÚV fyrr á árinu. Þeir fjölluðu um loftslagsmál og vöktu mikla athygli.


Tengdar fréttir

Svanhildur sækir ekki um stöðu útvarpsstjóra

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, ætlar ekki að sækja um starf útvarpsstjóra þrátt fyrir mikla hvatningu. Umsóknarfresturinn rennur út á miðnætti en hann var lengdur um viku af stjórn Ríkisútvarpsins án skýringa í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×