Innlent

Innanlandsflugvöllur betri kostur en millilanda í Hvassahrauni

Heimir Már Pétursson skrifar
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri.
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri. Vísir/Vilhelm
Í skýrslu sem gerð var fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að mun ódýrara yrði og byggja upp innanlandsflugvöll í Hvassahrauni en nýjan alþjóðaflugvöll. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fól starfshópi undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar formanns Samtaka atvinnulífsins að kanna flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins og er skýrslan nú tilbúin.

Niðurstöður hennar voru kynntar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun en verður sennilega ekki gerð opinber fyrr en eftir helgina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er komist að þeirri niðurstöðu að það muni taka allt að fimmtán ár að byggja flugvöll í Hvassahrauni og gera þurfi ítarlegar rannsóknir á svæðinu áður en til framkvæmda kæmi.

Þá yrði mjög dýrt að byggja upp nýjan alþjóðaflugvöll í hrauninu og áfram þyrfti að framkvæma fyrir stórar fjárhæðir á Keflavíkurflugvelli á þeim tíma sem tæki að byggja nýjan alþjóðaflugvöll. Kostnaður við hann yrði mikill og hlypi á þrjú til rúmlega fjögur hundruð milljörðum.

Hins vegar myndi kosta mun minna að byggja þar nýjan innanlandsflugvöll sem jafnframt gegndi hlutverki varaflugvallar fyrir Keflavík, eða á bilinu 40 til rúmlega fimmtíu milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×