Erlent

Tuttugu látin í mis­lingafar­aldri á Samóa­eyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Til að bregðast við faraldrinum hafa stjórnvöld skikkað alla, sem ekki hafa verið bólusettir gegn mislingum, til að láta bólusetja sig.
Til að bregðast við faraldrinum hafa stjórnvöld skikkað alla, sem ekki hafa verið bólusettir gegn mislingum, til að láta bólusetja sig. AP
Alls hafa tuttugu manns látist af völdum mislinga á Samóaeyjum á síðustu vikum. Mislingafaraldur gengur nú á eyjunum en tilkynnt hefur verið um hundruð sýktra á hverjum degi síðustu daga.

Neyðarástandi var lýst yfir í landinu um síðustu helgi þar sem skólum var lokað og fjöldasamkomur bannaðar. Af þeim tuttugu sem hafa látist eru nítján börn yngri en fjögurra ára. Öll voru þau óbólusett gegn sjúkdómnum. Tilkynnt var um fyrstu tilfellin í lok síðasta mánaðar.

Íbúar Samóaeyja, sem eru sunnan miðbaugs, milli Hawaii og Nýja-Sjálands, eru um 200 þúsund.

Til að bregðast við faraldrinum hafa stjórnvöld skikkað alla, sem ekki hafa verið bólusettir gegn mislingum, til að láta bólusetja sig.

Utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, Winston Peters, tilkynnti fyrir nokkrum dögum að Nýsjálendingar myndu senda um þrjú þúsund skammta af bóluefni til eyjanna og tólf hjúkrunarfræðinga til að aðstoða við að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×