Innlent

Sviðsstjóri í mál við Sinfóníuna og Hörpu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Verið var að undirbúa tónleika þegar slysið varð.
Verið var að undirbúa tónleika þegar slysið varð. Fréttablaðið/Ernir
Í gær var tekið fyrir mál sviðsstjóra hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands gegn hljómsveitinni og tónleikahúsinu Hörpu. Er það vegna bótakröfu í tengslum við vinnuslys sem varð árið 2013.

Að sögn Einars Gauts Steingrímssonar, lögmanns sviðsstjórans, er Hörpu stefnt sem húseiganda og Sinfóníunni sem vinnuveitanda. Upphaflega var fjármálaráðuneytinu einnig stefnt sem launagreiðanda, en eftir að ljóst var að Sinfónían bæri ábyrgð var fallið frá kröfum á ríkið. Sviðsstjórinn er nú í tímabundnu leyfi frá störfum.

„Þetta er heiðarlegur ágreiningur um bótaskyldu í sjálfu sér,“ segir Einar Gautur. „Deilt er um hvort öryggismálin hafi verið í lagi hjá atvinnurekanda. Við teljum að svo hafi ekki verið en þau telja að svo hafi verið.“ Slysið varð þegar verið var að undirbúa tónleika og eru meiðslin varanleg.

Einar segir málið meðal annars snúast um hver sé ábyrgð atvinnurekanda, hver sé ábyrgð húseiganda og hvort þeir beri báðir ábyrgð. Dagsetning aðalmeðferðar hefur ekki verið ákveðin en líkur eru á því að hún verði í febrúar á næsta ári.

Sinfóníuhljómsveit Íslands vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Ekki náðist í framkvæmdastjóra Hörpu fyrir vinnslu þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×