Innlent

Hjó hausinn af ketti með öxi og lét ófriðlega

Jakob Bjarnar skrifar
Maðurinn reif til sín köttinn, fór með hann niður í kjallara og hjó þar af honum hausinn. (Hin samsetta mynd tengist fréttinni ekki beint.)
Maðurinn reif til sín köttinn, fór með hann niður í kjallara og hjó þar af honum hausinn. (Hin samsetta mynd tengist fréttinni ekki beint.)
Maður nokkur var dæmdur fyrir að ryðjast inn á heimili barnsmóður sinnar, grípa kött sinn sem þar var, hafa hann með sér niður í kjallara og höggva þar af honum hausinn.

Maðurinn hlaut fyrir þetta dóm sem féll í Héraðsdómi Austurlands 28. október, sem nemur tveggja mánaða skilorðsbundinni fangelsisvist og að greiða 120 þúsund króna sekt í ríkissjóð.

Í dómsorði er ákæra lögreglustjórans á Austurlandi tíunduð, að hann sé sakaður um húsbrot, eignaspjöll og brot gegn lögum um velferð dýra og reglugerð um velferð gæludýra. Maðurinn ruddist inn í íbúð barnsmóður sinnar fyrir hádegi 6. júní í sumar með því að brjóta upp útidyrahurð og fara í framhaldi inn í íbúðina.

Þar tók hann kött  sem ákærði átti í íbúðinni og fór með hann niður í kjallara hússins og hjó af honum hausinn með öxi. Þetta gerði hann „án þess að leita til dýralæknis til að aflífa köttinn, án þess að svipta köttinn meðvitund fyrir aflífun og því ekki gætt að því að forðast að valda kettinum óþarfa þjáningum og hræðslu.“

Ákærði játaði skýlaust sakargiftir og verknaðarlýsingu og telur dómari enga ástæðu til að efast um þá háttsemi sem í ákæru er svo lýst. Dómarinn dæmdi manninn því sekan og segir háttsemi hans afar ófyrirleitna. Vímuáhrif hans á verknaðarstundu eru ekki metin honum til afsökunar en þó sé vert að líta til iðrunar og undabragðalausrar játningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×