Skoðun

Sam­herja­skjölin og spillingin

Oddný G. Harðardóttir skrifar
„Bölvun auðlindanna“ (Curse of the natural resources) er þekkt hugtak í hagfræði. Þetta kann að hljóma einkennilega en spilling er böl sem getur oft verið fylgifiskur skjótfengins gróða sem miklar náttúruauðlindir geta skapað.  Ísland býr yfir ríkulegum sjávarauðlindum og þessi bölvun vofir yfir okkur líkt og Namibíu.

Því er það viðfangsefni okkar stjórnmálamanna að kerfið sem sett er í kringum nýtingu þessara auðlinda, bæði hvað varðar úthlutun nýtingaleyfa sem og verðlagningu þeirra, verði sem gagnsæjast og byggi á jafnræði.  Pólitískar ákvarðanir um veiðigjöld og úthlutanir bjóða spillingunni heim. 

Þróunarsamvinnustofnun Íslands kom að uppbyggingu úthlutunar og gjaldtökukerfis fyrir hrossamakríl í Namibíu á sínum tíma. Útfærslan var markaðstengd til þess að draga úr spillingarhættunni.  Það kerfi virðist hafa verið aflagt um það leyti sem Samherji mætti á staðinn og stjórnmálamenn í Namibíu fengu aukin völd við úthlutun. 

Í þessu ljósi eigum við að líta  á tillögu íslenska sjávarútvegsráðherrans frá því í vor um að afhenda makrílkvótann ótímabundið til hagsbóta fyrir stærstu útgerðirnar, líkt og Samherja. Bar sú tillaga vott um að ráðherrann „segi sig frá“ öllu sem varðar Samherja?

Og í þessu ljósi eigum við að líta á allar ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið um nýtingarleyfi og auðlindagjöld og gera breytingar til að takmarka spillingarhættuna.

Við í Samfylkingunni höfum í nær tvo áratugi, eða allt frá stofnun flokksins, lagt fram tillögur um sanngjarnara og gegnsærra kerfi.

Það er ákveðin ögurstund og vendipunktur í umræðum um auðlindanýtinguna nú þegar spillingarhættan verður svo sýnileg með Samherjaskjölunum. Nýtum þessar ömurlegu fréttir og uppljóstranir til gagns kæru lesendur.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×