Viðskipti innlent

Skipaður fram­kvæmda­stjóri Hring­brautar­verk­efnisins hjá Land­spítala

Atli Ísleifsson skrifar
Benedikt Olgeirsson hefur lengi starfað hjá Landspítalanum.
Benedikt Olgeirsson hefur lengi starfað hjá Landspítalanum. Landspítalinn
Benedikt Olgeirsson hefur verið skipaður framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins á Landspítala frá og með deginum í dag.

Á vef Landspítalans segir að Benedikt hafi verið framkvæmdastjóri þróunar hjá Landspítala frá árinu 2015 og haldið í því starfi utan um Hringbrautarverkefnið. Áður hafi hann gegnt stöðu aðstoðarforstjóra spítalans á árunum 2010 til 2015.

„Benedikt er ekki í framkvæmdastjórn Landspítala en  Hringbrautarverkefnið á Landspítala heyrir beint undir forstjóra.

Ábyrgðarsvið Benedikts eru eftirfarandi:

  • Aðkoma Landspítala að hönnun og uppbyggingu meðferðarkjarna, rannsóknahúss og annarra tengdra bygginga í Landspítalaþorpinu við Hringbraut.
  • Yfirumsjón með tækjavæðingu og þróun upplýsingakerfa fyrir nýbyggingarnar.
  • Undirbúningur fyrir flutning starfseminnar, innleiðing nýbygginga og samþætting þeirra við eldri byggingar, ásamt þróun flæðis og ferla.
  • Aðkoma Landspítala að heildaráætlun um nýtingu og framtíðarþróun húsnæðis og innviða Landspítala, við Hringbraut og víðar.
Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í framkvæmdaverkfræði og verkefnastjórnun frá University of Washington í Seattle.  Á árunum 2005 til 2009 var hann framkvæmdastjóri umbreytingaverkefna hjá Atorku hf. og þar áður framkvæmdastjóri Parlogis ehf.  Hann starfaði hjá Eimskip hf. frá árinu 1993 til 2004 sem forstöðumaður flutningamiðstöðvar í Sundahöfn, forstöðumaður innanlandsflutninga og sem framkvæmdastjóri Eimskips í Hamborg. Benedikt vann við verkefnastjórnun í byggingargeiranum á árunum 1988 til 1993.

Framkvæmdir í Landspítalaþorpinu við Hringbraut eru stærsti áfanginn í íslensku heilbrigðiskerfi frá upphafi. Þessi uppbygging og endurnýjun á innviðum Landspítala verður bylting í aðstöðu, þjónustu og öryggi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×