Erlent

Sex börn meðal þeirra sem fundust á lífi í flutninga­vagni í Grikk­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill fjöldi er sagður fara yfir landamæri Tyrklands og Grikklands á hverjum degi.
Mikill fjöldi er sagður fara yfir landamæri Tyrklands og Grikklands á hverjum degi. Vísir/AP
41 og þar af sex börn fundust á lífi í flutningavagni í norðurhluta Grikklands í dag. Talið er að fólkið hafi komið yfir til Grikklands í gegnum landamæri þess við Tyrkland.

Einungis var um að ræða karlmenn og drengi en allir nema tveir þeirra eru sagðir koma frá Afganistan, samkvæmt upplýsingum frá grísku lögreglunni. Hinir eru sagðir vera frá Íran og Sýrlandi.

Fólkið fannst í felum um borð í kælivagni við reglubundna athugun nálægt borginni Xanthi. Slökkt var á kælikerfi vagnsins.

Fregnirnar koma einungis tíu dögum eftir að 39 fundust látnir í vörubíl í Essex í Bretlandi.

Trukkurinn sem fannst nú í Grikklandi er skráður í Búlgaríu og hefur ökumaðurinn verið handtekinn og yfirheyrður af lögreglu. Hann er sagður vera fjörutíu ára gamall maður frá Georgíu.

Nokkrir úr hópnum óskuðu eftir læknishjálp og átta þeirra voru meðhöndlaðir á sjúkrahúsi vegna öndunarörðugleika.


Tengdar fréttir

Þrjú látin laus úr haldi

Þrjú sem handtekin voru í tengslum við dauða þeirra 39 sem fundust í gámi vörubíls í Essex hafa verið látin laus úr haldi gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×