Innlent

Lögreglumaðurinn fletti fjórtán sinnum upp máli sonar síns í LÖKE

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumaðurinn starfar á Suðurnesjum.
Lögreglumaðurinn starfar á Suðurnesjum. Vísir/Vilhelm
Lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem sætir ákæru fyrir brot í opinberu starfi fletti á þriggja vikna tímabili fjórtán sinnum upp máli tengdu syni hans. Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir að hafa annars vegar reynt að hindra framgang máls þar sem sonur hans var kærður fyrir ofan hraðan akstur en hins vegar fyrir að hafa ítrekað flett upp máli sonar síns.

Lögreglumaðurinn er tæplega sextugur en sonur hans rúmlega tvítugur. Lögreglumaðurinn fletti upp máli sonar síns í upplýsingakerfi lögreglu, LÖKE, alls átta sinnum þann 23. maí, þrisvar sinnum þann 11. júní og svo þrisvar til viðbótar aðra daga í kring.

Uppflettingarnar tengdust á engan hátt starfi hans sem lögreglumanns og voru afleiðingarnar þær að hallaði á réttindi hins opinbera í málinu, segir í ákærunni.

Brot lögreglumannsins varða allt að tveggja ára fangelsi.

Lögreglumaður var fyrir tæpum fjórum árum ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum kvenna í LÖKE án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans. Sá ákæruliður var síðar felldur niður þar sem ekki taldist sannað að uppflettingarnar hefðu ekki tengst starfi hans.

Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjaness í gær.

Fréttin var uppfærð en áður sagði að lögregumaðurinn hefði tólf sinnum flett nafninu upp.


Tengdar fréttir

Lögreglumaður ákærður fyrir að reyna hindra framgang máls sonar hans

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur lögreglumanni fyrir að hafa reynt að hindra framgang máls þar sem sonur hans var kærður fyrir of hraðan akstur. Þá er hann einnig ákærður fyrir ólöglegar uppflettingar í LÖKE, upplýsingakerfi lögreglunnar. Ellefu lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir brot í starfi á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×