Viðskipti innlent

Arðsemi Íslandsbanka nam 4,7 prósentum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Fréttablaðið/Eyþór
Arðsemi Íslandsbanka á þriðja fjórðungi ársins nam 4,7 prósentum á ársgrundvelli og lækkaði á milli ára. Arðsemin var um 4,9 prósent á sama fjórðungi í fyrra.

Hagnaður bankans nam 2,1 milljarði króna og stóð í stað á milli ára en hagnaður af reglulegri starfsemi nam 3 milljörðum króna og hækkaði um 100 milljónir.

Hreinar vaxtatekjur námu 8,4 milljörðum króna og jukust einnig um 100 milljónir á milli ára. Vaxtamunur bankans var 2,7 prósent en hann var 3 prósent á sama fjórðungi í fyrra. Þá hækkuðu hreinar þóknunartekjur úr 2,9 milljörðum króna í 3,1 milljarð.

Í uppgjörstilkynningu bankans var haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að neikvæðar virðisbreytingar, sem meðal annars má rekja til þess að nokkuð hefur hægt á efnahagslífinu, hefðu dregið úr afkomu og arðsemi. Á móti hafi kostnaðarhlutfall farið lækkandi.

Í október lækkaði Fjármála­eftirlitið lágmarkskröfu um eigið fé Íslandsbanka úr 19,3 prósentum í 18,8 prósent. Lækkunin er rakin til minni áhættu í rekstri bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×