Innlent

Vara flug­menn við að treysta á Reykja­víkur­flug­völl við erfið skil­yrði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Vísir/Egill
Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna telur að sýna þurfi sérstaka aðgát ef nota þurfi Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll utan auglýsts þjónustutíma séu líkur á ísingu og skertum bremsuskilyrðum. Að minnsta kosti tvö tilvik hafa komið upp undanfarið eitt og hálft ár þar sem væntingar flugmanna með þjónustu Isavia hafa brugðist.

Þetta kemur fram í mati öryggisnefndarinnar sem birtist á vef FÍA í dag og sent var íslenskum atvinnuflugmönnum í tölvupósti. Þar segir að áhafnir flugvéla hafi í gegnum tíðina getað reitt sig á Reykjavíkurflugvöll sem ákjósanlegan varaflugvöll. Undanfarin ár hafi þó þrengt að vellinum, ekki síst vegna takmarkana á þjónustutíma sem auglýstur sé í flugmálahandbók, AIP Iceland.

Í bókinni kemur fram að Reykjavíkurflugvöllur sé lokaður fyrir allri umferð frá klukkan 23 að kvöldi til sjö að morgni á virkum dögum en átta að morgni um helgar. Þá er hann lokaður ýmsa helgidaga.

Hins vegar segir einnig í bókinni að Reykjavíkurflugvöll sé hægt að fá opnaðan með flugupplýsingaþjónustu (AFIS) utan þjónustutíma með 15 mínútna fyrirvara, meðal annars fyrir millilandaflug sem notar flugvöllinn sem varaflugvöll.

„Nú hafa komið upp amk. tvö tilvik á 18 mánuðum þar sem væntingar flugmanna til þessarar þjónustu hafa brugðist og Isavia ekki tekist að gera flugvöllinn nothæfan á 15 mínútum eins og kemur fram í flugmálahandbók,“ segir í mati öryggisnefndarinnar.

Það er því mat Öryggisnefndar FÍA að sýna þurfi sérstaka aðgát ef nota þarf Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll utan auglýsts þjónustutíma ef líkur eru á ísingu og skertum bremsuskilyrðum.


Tengdar fréttir

Jón segir uppbyggingu varaflugvalla ekki þola bið

Varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar og fyrrverandi samgönguráðherra segir uppbyggingu varaflugvalla á Akureyri og Egilsstöðum ekki þola bið. Breyta þurfi fyrirliggjandi samgönguáætlun og þar með fjárlögum næsta árs til að framkvæmdir geti hafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×