Erlent

Spánverjar bjóðast til að taka við loftslagsráðstefnunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Madrid gæti orðið fundarstaður loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Madrid gæti orðið fundarstaður loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Spánar hefur boðist til að halda COP25-loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid og verður boðið tekið til umfjöllunar í næstu viku. Til stóð að halda ráðstefnuna í Santiago í Síle en þarlend stjórnvöld sögðust í gær þurfa að hætta við vegna fjöldamótmæla sem hafa geisað í borginni undanfarnar vikur.

Ráðstefnan átti að hefjast 3. desember og standa yfir í tvær vikur. Allt að 25.000 samningamenn, embættismenn, fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka frá tæplega 200 löndum voru væntanlegir til Síle vegna fundarins.

Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að hann hefði boðið Madrid fram sem fundarstað. Stjórnvöld í Síle ætli að mæla með því við Sameinuðu þjóðirnar. Verði sú tillaga samþykkt færu Sílemenn líklega áfram með formennsku á ráðstefnunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×