Fótbolti

Tveir stuðningsmenn Liverpool rugluðust á Genk og Gent og misstu af leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool en ekki þó þeir sem viltust í Belgíu.
Stuðningsmenn Liverpool en ekki þó þeir sem viltust í Belgíu. Getty/ TF-Images
Tvö sæti sem seldust á Meistaradeildarleik Genk og Liverpool í gær voru tóm og fyrir því var frekar brosleg ástæða.

Tveir stuðningsmenn Liverpool ætluðu að fylgja sínu liði á mikilvægan útileik í Meistaradeildinni en voru hvergi sjáanlegir þegar leikurinn var flautaður á. Liverpool liðið vann leikinn 4-1 og vann sinn fyrsta útileik í riðlakeppni Meistaradeildar síðan haustið 2017.

Stuðningsmennirnir voru ekki alveg með nafn mótherjanna á hreinu eða réttara sagt frá hvaða borg andstæðingarnir voru. Þeir ferðuðust nefnilega til Gent en ekki til Genk.





Báðar borgir eru í Belgíu og með fótboltafélög í fremstu röð. Genk er í Meistaradeildinni en Gent er í Evrópudeildinni. Genk er í austurhluta Belgíu en Gent er mun vestar.

Félagarnir voru það utan við sig að þeir áttuðu sig ekki fyrr en of seint að þeir voru í vitlausri borg. Það var enginn tími til að ferðast á milli enda tekur það meira en tvo klukkutíma.





Liverpool stuðningsmennirnir fundu sér því írskan bar og horfðu á leik sinna manna þar.

Forráðamenn Gent fundu til með félögunum og hafa boðið þeim á Evrópudeildarleik á móti Wolfsborg í kvöld. Þeir leyfðu sér líka að skjóta aðeins á félagana og sögðust ætla að bjóða þeim upp á smá kennslu í belgískri landafræði eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×