Innlent

BÍ fordæmir aðgerðir Íslandsbanka fortakslaust í harðorðri ályktun

Jakob Bjarnar skrifar
Stjórn Blaðamannafélags Íslands telur Íslandsbanka á miklum villigötum varðandi viðskiptaþvinganir á hendur fjölmiðlum. Hjálmar Jónsson er formaður BÍ en Edda Hermannsdóttir kynnti áform bankans í gær.
Stjórn Blaðamannafélags Íslands telur Íslandsbanka á miklum villigötum varðandi viðskiptaþvinganir á hendur fjölmiðlum. Hjálmar Jónsson er formaður BÍ en Edda Hermannsdóttir kynnti áform bankans í gær.
Blaðamannafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar nú fyrr í dag. Þar er til umfjöllunar mál sem Vísir fjallaði um í gær og vakti mikla athygli, sem snýr að aðgerðaráætlun Íslandsbanka sem gengur út á að sé ekki jafns kynjahlutfalls gætt á fjölmiðlum, þá muni bankinn ekki auglýsa á þeim miðli.

Blaðamannafélag Íslands fordæmir þessar hugmyndir fortakslaust en í ályktuninni segir:

„Fráleit aðför Íslandsbanka að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla þjónar ekki hagsmunum jafnréttisbaráttunnar og það verður að gera þær kröfur til banka í eigu almennings og þá sem stýra þar málum í umboði hans að þeir vandi betur til verka.“

Mun Íslandsbanki hætta að auglýsa í Vikunni?

Í ályktuninni er spurt hvort bankinn muni ekki auglýsa í Vikunni vegna viðvarandi kynjahalla á ritstjórn og í hópi viðmælenda? En, Vikan hefur einkum fjallað um konur og af konum.

„Mun bankinn ekki auglýsa í Fiskifréttum vegna viðvarandi kynjahalla á ritstjórn og í hópi viðmælenda? Það var raunar Vikan sem setti á dagskrá mögulegt mansal í íslensku samfélagi og viðkomandi blaðamaður mátti skjóta máli sínu til Mannréttindadómstólsins til að fá réttingu mála sinna og tímaritið Ísafold mátti þola það að önnur af tveimur stærstu smásölukeðjum landsins neitað að dreifa blaðinu vegna umfjöllunar um nektardansstaði og þá starfsemi sem þar færi fram!“

 

Fjársterkir aðilar hlutast til um umfjöllunarefni fjölmiðla

Þá er vikið að því að ekkert nýtt sé að fjársterkir og valdamiklir aðilar í landinu reyni að hlutast til um umfjöllunarefni fjölmiðla og hafa áhrif á þau.

„En ömurlegt að upplifa það að fyrirtæki í eigu almennings hagi sér með þessum hætti. Allar slíkar tilraunir eru í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar um frelsi fjölmiðla.“

Frétt Vísis um áform bankans í gær vakti mikla athygli og var meðal annars fjallað um hana á þingi í óundirbúnum fyrirspurnum í gær.
Í ályktuninni er áréttað að ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og fjölmiðlamanna sé algjört grundvallaratriði í lýðræðislegri umræðu nútímans.  Annars er hættan sú að samfélagið sé ekki endurspeglað með hlutlægum hætti og þar með bíður traustið hnekki sem er grundvöllur lýðræðisins.

„Þessa vegna mun Blaðamannafélag Íslands ávallt berjast gegn hvers kyns tilraunum til að hafa áhrif á ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla, hvort sem þar á í hlut Fjölmiðlanefnd, eigendur eða auglýsendur.“ 

Hefnd bankans?

Í ályktuninni, en þar er farið um víðan völl, er jafnframt vakin athygli á því að það hafi verið fjölmiðlar og fjölmiðlamenn sem hafa verið aflvaki breytinga í íslensku samfélagi og átt stóran þátt í þeim framförum sem íslenskt samfélag hefur sannarlega tekið á undanförnum áratugum.

„Það voru íslenskir blaðamenn og fjölmiðlar þeirra sem settu samkynhneigð á dagskrá í íslensku samfélagi, misnotkun barna, heimilisofbeldi og ástandið á uppeldisheimilum á árum áður, svo fáein dæmi séu tekin. Og það má halda því fram með rökum að frekar halli á aldur og stétt í umfjöllun íslenskra fjölmiðla en kyn.“



Að endingu segir er því velt upp hvort um einhvers konar hefndarráðstöfun geti verið um að ræða af hálfu bankans; að því verði ekki trúað að „… umfjöllun fjölmiðla í gegnum tíðina um launakjör og sjálftöku forsvarsmanna bankakerfisins, sem hagar sér eins og ríki í ríkinu, nýjasta dæmið verandi ríflegur endurmenntunarstyrkur í Seðlabankanum, sem bankinn móaðist við í tæpt ár að veita upplýsingar um, valdi þessari einkennilegu ákvarðanatöku, en sporin hræða.

Hugmyndir Íslandsbanka í þessum efnum eru greinilega illa ígrundaðar og hljóta að verða lagðar til hliðar. Bankinn getur lagt jafnrétti lið með mörgum öðrum hætti.“


Tengdar fréttir

Út­spil Ís­lands­banka kemur fjár­mála­ráð­herra spánskt fyrir sjónir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra veltir fyrir sér hvar Íslandsbanki ætli að draga mörkin þegar komi að jafnréttismálum. Bankinn, sem er í eigu ríkisins, ætlar að beina viðskiptum sínum frá karlægum fyrirtækjum og hætta að kaupa auglýsingar hjá fjölmiðlum "sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×