Erlent

Þrjú látin laus úr haldi

Sylvía Hall skrifar
Þrjú sem handtekin voru í tengslum við dauða þeirra 39 sem fundust í gámi vörubíls í Essex hafa verið látin laus úr haldi gegn tryggingu. Alls hafa fimm verið handtekin í tengslum við málið og hefur bílstjóri vörubílsins verið ákærður.

Þau sem látin voru laus eru hjón og maður sem grunuð voru um að tengjast málinu. Hjónin Joanna og Thomas Maher höfðu verið handtekin í Warrington á föstudag, grunuð um samsæri um mansal og manndráp og maðurinn seinna þann sama dag á Stansted-flugvelli í London.

Sjá einnig: Bílstjórinn hefur verið ákærður fyrir manndráp

Bílstjórinn verður leiddur fyrir dómara á mánudag en hann hefur verið ákærður fyrir 39 manndráp, mansal, brot gegn innflytjendalögum og peningaþvætti.

Margir víetnamskir ríkisborgarar hafa stigið fram og lýst því yfir að þeir óttist að ættingjar þeirra séu á meðal hinna látnu. Talsmaður síðunnar VietHome, sem er vettvangur fyrir Víetnama í Bretlandi, hefur afhent lögreglu í Bretlandi myndir af um tuttugu manns sem þeir halda að geti verið á meðal hinna látnu.

Lögregla vinnur nú að því að bera kennsl líkin en talið er að það gæti reynst tímafrekt ferli. Þá er einnig rannsakað hvort um sé að ræða stærra mál þar sem talið er að um þrír slíkir bílar hafi borið um hundrað manns um borð sem átti að koma inn í landið.


Tengdar fréttir

Bílstjórinn sem ók vörubílnum nafngreindur

Lögreglan í Essex í Bretlandi hefur nafngreint vörubílstjóranum sem ók vörubílnum sem fannst í nótt og innihélt 39 lík. Vörubílstjórinn heitir Mo Robinson og hefur hann verið handtekinn grunaður um morð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×