Innlent

Tekinn með kókaín á Spáni

Ari Brynjólfsson skrifar
Maðurinn var tekinn með mikið magn af kókaíni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Maðurinn var tekinn með mikið magn af kókaíni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslenskur karlmaður er í haldi lögreglunnar á Spáni vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hann var handtekinn á flugvellinum í Barcelona í síðustu viku er hann hugðist ferðast þaðan til Íslands. Mikið magn kókaíns fannst í farangri mannsins.

Heimildir Fréttablaðsins herma að um rúmlega 5 kíló hafi verið að ræða. Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hefur ekki svarað fyrirspurn blaðsins um hvort lögregluyfirvöld á Spáni hafi óskað eftir samstarfi vegna málsins en miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki fengið slíka beiðni síðdegis á föstudag.

Lagt hefur verið hald á mikið magn af kókaíni hér á landi á þessu ári. Í maí voru tveir Íslendingar teknir í Leifsstöð með 16 kíló falin í ferðatöskum. Tveir voru teknir með 5,5 kíló í Leifsstöð í september. Þá voru fimm kíló af kókaíni falin í bíl sem kom til landsins með Norrænu í ágúst.

Alls hefur verið lagt hald á meira en 30 kíló af kókaíni við komu til landsins í ár. Kókaín er talsvert dýrara en önnur fíkniefni. Samkvæmt tölum SÁÁ hefur götuvirðið lækkað nokkuð frá árslokum 2017, farið úr rúmum 18 þúsund krónum fyrir grammið niður í 14 þúsund.

Sérstök umræða fór fram á Alþingi um fíkniefnafaraldur nýverið. Fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að í fyrra hafi meira en helmingur innlagna á Vog verið vegna fíknar í örvandi efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×