Erlent

Ung kona myrt af lög­reglu­manni á heimili hennar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Atatiana Jefferson lést fyrir hendi lögreglumanns á heimili hennar.
Atatiana Jefferson lést fyrir hendi lögreglumanns á heimili hennar. twitter/NAACCP
Ung kona lést eftir að lögreglumaður skaut hana til bana í hennar eigin svefnherbergi snemma á laugardagsmorgunn. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Atatiana Jefferson, sem var aðeins 28 ára gömul, var búsett í húsi í bænum Fort Worth í Texas ríki í Bandaríkjunum með átta ára gömlum frænda sínum.

Lögreglan hafði fengið ábendingu frá áhyggjufullum nágranna Jefferson vegna þess að útidyrnar á húsi hennar voru opnar um nóttina.

Lögregluembættið í Fort Worth hefur birt myndskeið úr líkamsmyndavél (e. Body cam) lögreglumannsins sem hleypti skotinu af, þar sem hann sést skjóta hana aðeins örfáum sekúndum eftir að hann kom auga á hana.

Þá sést lögreglumaðurinn ganga hringinn í kring um húsið og kanna aðstæður áður en hann sá Jefferson í gegn um svefnherbergisglugga hennar. Eftir að hann krafði hana um að rétta upp hendur skaut hann hana í gegn um gluggann.

Lögreglan í Fort Worth sagði í yfirlýsingu að lögreglumaðurinn, sem er hvítur, hafi þótt sér ógnað þegar hann dró fram vopn sitt. Hann var sendur í leyfi sem mun vara á meðan á rannsókn málsins stendur.

Atvikið átti sér stað um klukkan 02:30 að staðartíma á aðfaranótt sunnudags.

Myndskeiðið sem var birt hefur verið unnið og einhvern hluta þess vantar en lögreglumaðurinn virðist miðað við það ekki hafa tilkynnt að hann væri lögreglumaður áður en hann hleypti skotinu af. Þá sýnir myndskeiðið ekki myndir innan úr húsinu en þar sést þó vopn sem lögreglan segist hafa fundið inni í svefnherberginu.

Ekki er ljóst hvort Jefferson hafi haldið á vopninu þegar hún var skotin en það er löglegt fyrir fólk sem er 18 ára eða aldra að ganga með vopn í Texas ríki. Lögreglan segir að lögreglumenn hafi veitt Jefferson skyndihjálp á staðnum en hún dó á vettvangi.

Jefferson hafði verið að spila tölvuleiki með litla frænda sínum áður en hún fór að rannsaka hljóð sem hún heyrði fyrir utan gluggann. Þetta segir lögmaður fjölskyldu hennar.

Móðir Jefferson hafði stuttu áður orðið mjög veik og Jefferson var því að hjálpa til heima fyrir.



Samtökin The National Association for The Advancement of Coloured People (NAACP) segir andlát Jefferson „óásættanlegt.“

Athugið að myndskeiðið hér að neðan er ekki fyrir viðkvæma.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×