Viðskipti innlent

Ingólfur greiðir sér 300 milljónir í skugga launalækkana starfsmanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingólfur Abrahim Shahin hefur efnast vel hjá Guide to Iceland.
Ingólfur Abrahim Shahin hefur efnast vel hjá Guide to Iceland. Guide to Iceland
Bókunarfyrirtækið Guide to Iceland hagnaðist um 795 milljónir króna eftir skatt í fyrra. Hagnaðurinn árið á undan var 690 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem Mbl greindi frá fyrir helgi.

Xiaochen Tian, framkvæmdastjóri Guide to Iceland, sagði að stjórn félagsins hefði ákveðið að greiða 563 milljónir króna í arð. Stjórnarformaður Guide to Iceland er Ingólfur Abrahim Shahin sem á rúmlega 55 prósenta hlut í félaginu.

Ingólfur fær því rúmlega 300 milljónir króna í arðgreiðslur fyrir síðasta ár. Þetta er annað árið í röð sem Ingólfur greiðir sér 300 milljóna króna arð út úr fyrirtækinu.

Athygli vakti í sumar þegar Guide to Iceland sagði upp ellefu starfsmönnum og starfsfólk var látið taka á sig launalækkun. Var um að ræða viðbrögð vegna gjaldþrots WOW air.

Stundin hefur fjallað töluvert um málefni starfsfólks Guide to Iceland. Í frétt miðilsins fyrir ári var greint frá því að starfsfólkinu væri gert að 

setja upp sérstakt forrit á tölvum sínum sem gerir yfirmönnum kleift að fylgjast náið með því sem starfsmenn gera í tölvum sínum á vinnutíma. Gætti nokkurrar óánægju meðal starfsmanna með eftirlitið. 

Þá sagði ritstjóri vefblaðsins Guide to Iceland Now að Ingólfur hefði rekið hana úr starfi þegar hún neitaði að nýta frítíma sinn í að skrifa fréttir fyrir fyrirtækið.

Ingólfur, sem er 38 ára, keypti sér fasteign á síðasta ári og var hún ekki af verri endanum. Um er að ræða 433 fermetra einbýlishús við Fjölnisveg 11 en húsið hefur meðal annars verið í eigu Hannesar Smárasonar, Skúla Mogensen og Guðmundar Kristjánssonar í Brim.


Tengdar fréttir

Fyrirtækið Guide to Iceland greiðir 600 milljóna króna arð

Guide to Iceland sem rekur markaðstorg fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hagnaðist um 676 milljónir króna á síðasta ári. Tekjuvöxtur fyrirtækisins nam 70 prósentum á milli ára. Vinna að því að fara í útrás með hugbúnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×