Erlent

Lögbann sett á þungunarrofslögin í Georgíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn hjartsláttarfrumvarpinu í Atlanta í Georgíu í maí.
Frá mótmælum gegn hjartsláttarfrumvarpinu í Atlanta í Georgíu í maí. Vísir/Getty
Bandarískur alríkisdómari lagði í dag tímabundið lögbann við því að umdeild og ströng þungunarrofslög taki gildi í Georgíu. Lögin eiga að taka gildi við upphaf nýs árs og myndu banna þungunarrof, jafnvel þegar í sjöttu viku meðgöngu.

Hópur mannréttindasamtaka, lækna og heilsugæslustöðva höfðuðu mál gegn ríkinu í sumar til að fá lögunum sem voru undirrituð í maí hnekkt, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram og samþykkt í fleiri ríkjum þar sem repúblikanar fara með völd. Þau hafa verið nefnd hjartsláttarfrumvörp þar sem þau kveða á um að þungunarrof sé óheimilt þegar hægt er að greina hjartslátt í fóstri. Á þeim tíma vita margar konur ekki af því að þeir séu þungaðar.

Undanþágur eru þó frá lögunum í Georgíu í sumum tilfellum eins og þegar kona verður þunguð eftir nauðgun eða sifjaspell, líf móður er í hættu eða fóstrið er með alvarlega galla.

Málsvarar frumvarpa af þessu tagi hafa sums staðar talað opinskátt um að þeir hafi samþykkt lögin gagngert til þess að þau yrðu felld úr gildi fyrir dómstólum. Markmið þeirra er að fá Hæstarétt Bandaríkjanna, sem nú er skipaður öruggum meirihluta íhaldsmanna, til að taka upp lögmæti laganna. Fyrir þeim vakir að hæstiréttur snúi við dómafordæminu sem lögleiddi þungunarrof í Bandaríkjunum.

Lögin í Georgíu vöktu mikla athygli en þau yrðu ein þau ströngustu í Bandaríkjunum tækju þau gildi. Stórfyrirtæki hafa hótað að sniðganga Georgíu vegna þeirra og fjöldi Hollywood-stjarna hefur deilt á yfirvöld vegna þeirra.


Tengdar fréttir

Ein ströngustu þungunarrofslög Bandaríkjanna staðfest

Lögin kveða á um að þungunarrof sé bannað eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Læknar benda á að slíkt geti verið misvísandi og að margar konur viti ekki af því að þær séu óléttar á því stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×