Innlent

Búið að koma öllum farþegum úr vélunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Örtröð hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag vegna þess að ferðum hefur verið aflýst og ekki hefur verið hægt að afferma vélar. Myndin er úr safni.
Örtröð hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag vegna þess að ferðum hefur verið aflýst og ekki hefur verið hægt að afferma vélar. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Lokið var við að afferma þær flugvélar sem enn biðu við Keflavíkurflugvöll á tíunda tímanum í kvöld. Ekki hefur verið hægt að nota landgöngubrýr vegna veðurs en þegar mest lét síðdegis má áætla að á annað þúsund farþega hafi setið föst úti í flugvélum.

Samkvæmt upplýsingum frá Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, var lokið við að koma farþegum síðustu vélanna frá borði skömmu eftir klukkan níu í kvöld. Um klukkan 17:00 hafi fleiri en tíu vélar beðið þess að geta hleypt farþegum frá borði.

Icelandair og fleiri flugfélögum aflýstu öllum flugferðum síðdegis og í kvöld vegna hvassviðris sem gengur yfir suðvesturhorn landsins. Ásdís segir að nú sé unnið að skipulagningu á hvenær hægt verði að byrja að fljúga aftur.

Sumir farþegar biðu í fleiri klukkustundir í dag eftir að komast frá borði. Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikar, sagði Vísi í kvöld að hann hefði beðið í þrjár klukkustundir og fjörutíu mínútur eftir að vera hleypt frá borði. Hann átti að stíga á svið í Borgarleikhúsinu klukkan 20:00 í kvöld en komst ekki út úr vélinni fyrr en eftir klukkan 19:30.

Tvær vélar Wizz air lentu á Egilsstöðum vegna veðurs. Jórunn Edda Helgadóttir, einn farþeganna um borð, sagði Vísi að farþegunum hafi verið boðið að fljúga með vélinni aftur til Krakár í Póllandi. Annars þyrftu farþegarnir að bjarga sér sjálfir yfirgæfu þeir vélina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×