Íslenski boltinn

„Komast í raun bara upp með að bulla og bulla án þess að þurfa svara eitthvað sér­staklega fyrir það“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Heiðar lagði skóna á hilluna fyrir ári.
Gunnar Heiðar lagði skóna á hilluna fyrir ári. vísir/ernir
Gunnar Heiðar Þorvaldsson segir að enginn fótur hafi verið fyrir þeim sögusögnum að hann yrði næsti þjálfari ÍBV. Fyrr í sumar var fullyrt í hlaðvarpinu Dr. Football að Gunnar Heiðar myndi taka við ÍBV.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá veit ég satt best að segja ekki hvaðan þessar sögusagnir koma. Það hefur aldrei verið haft sam­band við mig af hálfu forráðamanna ÍBV og ég held í alvörunni að þessi umræða hafi sprottið upp eftir einhverjar fáránlegar umræður sem áttu sér stað í brekkunni á Þjóðhátið. Þaðan hefur aldrei komið áreiðanleg heimild,“ sagði Gunnar Heiðar í samtali við mbl.is.

Hann gagnrýnir fréttaflutning af málinu og segir heimildirnar á bak við hann ekki merkilegar.

„Með fullri virðingu fyrir ykkur blaðamönnum þá er sé ég ekki mikinn metnað í því að pikka bara upp einhver ummæli í einhverjum hlaðvarpsþætti eða sem einhver skrifar á Twitter og ætla svo að halda því fram að það sé einhver frétt. Í mínu tilfelli þá var nafn mitt dregið inn í einhverja umræðu og sá eini sem hefur þurft að svara fyr­ir þetta er ég sjálfur. Það hefur verið leiðinlegt fyrir bæði mig og fjölskyldu mína að svara fyrir þetta á meðan þeir sem hentu þessu fram á sínum tíma komast í raun bara upp með að bulla og bulla án þess að þurfa svara eitthvað sér­staklega fyrir það. Þetta er ekki merkileg fréttamennska finnst mér og í raun bara óábyrgt.“

Gunnar Heiðar lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. Hann skoraði 61 mark í 127 leikjum fyrir ÍBV í efstu deild. Þá skoraði hann markið sem tryggði Eyjamönnum bikarmeistaratitilinn fyrir tveimur árum.

ÍBV hefur ekki enn ráðið þjálfara fyrir næsta tímabil. Pedro Hipolito tók við liðinu fyrir þetta tímabil en var sagt upp í lok júní. Ian Jeffs og Andri Ólafsson hafa stýrt ÍBV síðan þá. Sá síðarnefndi hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs ÍBV.

Eyjamenn eru löngu fallnir úr Pepsi Max-deildinni. Þeir mæta Stjörnunni í lokaumferð deildarinnar á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×