Menning

Stef úr hversdagsleika

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Guðlaug notar form og efni níunda og tíunda áratugarins.
Guðlaug notar form og efni níunda og tíunda áratugarins. Fréttablaðið/Anton Brink
Verkin sýna merkin er fyrsta einkasýning Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur frá því hún lauk mastersnámi sínu frá frá Koninklijke Academie í Gent, Belgíu, á síðasta ári. Hún rak um tíma sýningarrými í Antwerpen ásamt sex íslenskum myndlistarmönnum. Þessa stundina dvelur hún á Íslandi.

Um þessa sýningu, sem stendur til 28. september í Harbinger, segir hún: „Á sýningunni vinn ég með ýmis kunnugleg stef úr íslenskum hversdagsleika, ég hef verið að grandskoða þau form sem byggja upp nærumhverfi okkar eins og stigaganga, gluggasyllur og anddyri, þau form, efni og liti sem þar má finna og ég svo endurraða í skúlptúrum. Úr verða ný sambönd byggð á kunnuglegum stefjum fyrir áhorfendur að kanna. Ég nota form og efni níunda og tíunda áratugarins, svo á sýningunni má finna efnisleg fortíðarstef sem tengja áhorfendur við aðra tíma og aðra efniskennd en þá sem umkringir okkur í nútímanum.“

Vísanir í virkni

Í því samhengi nefnir Guðlaug titil sýningarinnar, Verkin sýna merkin: „Titillinn gefur eins konar leiðbeiningar um hvernig skoða megi sýninguna, þar sem verkin gefa hver og eitt hlutverk sitt til kynna. Á sýningunni velti ég fyrir mér ætluðum hlutverkum verka og áhorfanda, hvernig áhorfandinn getur haft áhrif á upplifum sína og annarra á verkunum. Verkin hér á sýningunni bera öll með sér vísanir í einhverja virkni eða hlutverk og það er áhorfandans að koma auga á það, hvort sem það er með því að snerta, setjast eða jafnvel drekka og borða. Þannig virkjar áhorfandinn sýninguna og verður um leið þáttur af henni.“

Eitt verkanna á sýningunni minnti blaðamann á eins konar ofn en í ljós kom að listamaðurinn var þar með stigahandrið í huga. „Þú nefnir ofn og þetta verk minnir svo sannarlega á ofn þótt ég hafi verið innblásin af stigahandriði,“ segir Guðlaug. „Fólk kemur hingað inn og einn sér eitthvert ákveðið samhengi í einu verki meðan annar gestur sér eitthvað allt annað. Báðir eiga þó sameiginlegt að vísa í þessi hversdagslegu stef sem sýningin snýst um.“



Ekkert bannað

Meðal annarra verka er verkið Hvar er klukkan, falið verk sem er þó stærsta verk sýningarinnar, vatnstankur sem er jafnframt skúlptúr sem myndlistarkonan smíðaði og virkar fullkomlega, og snakk­skúlptúr fyrir gluggakistur, í henni má finna jarðhnetur með teiknuðum andlitum sem gestir mega borða. „Á þessari sýningu geta áhorfendur fengið sér að borða og drekka, sest niður og tekið sér pásu en þó er þátttaka fólgin í hverri hvíld þar sem skúlptúrarnir virkjast í leiðinni. Þannig ráða áhorfendur því sjálfir hvort og hvernig þeir taka þátt í sýningunni,“ segir Guðlaug. „Sumir eru hikandi og óvissir, vita ekki hvort þeir megi snerta verkin eða borða en svo eru aðrir sem vaða beint í allt, setjast niður og snerta og gera allt sem þeir vilja. Hér er nefnilega ekkert bannað.“

Sýningin stendur til 28. september í Harbinger, Freyjugötu 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.