Innlent

Annar með hafnaboltakylfu, hinn með hníf og báðir ákærðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mönnunum lenti saman að kvöldi sunnudagsins 7. júlí í sumar framan við Barónstíg 47 í Reykjavík.
Mönnunum lenti saman að kvöldi sunnudagsins 7. júlí í sumar framan við Barónstíg 47 í Reykjavík. Já.is
Tveir karlmenn sem sæta ákæru héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás neituðu báðir sök við þingfestingu málsins sem er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Það sem vekur athygli er að mennirnir eru ákærðir fyrir líkamsárás hvor á annan að kvöldi sunnudagsins 7. júlí í sumar við Barónstíg í Reykjavík.

Annar karlmaðurinn er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að og slegið hinn karlmanninn einu höggi í höfuðið með hafnaboltakylfu. Afleiðingarnar voru þær að viðkomandi hlaut fjögurra sentímetra skurð á mitt enni sem sauma þurfi saman með fimm sporum. Auk þess hlaut hann heilahristing. Hann gerir kröfu um þrjár milljónir króna í skaðabætur.

Hinn karlmaðurinn, sá sem þurfti að sauma fimm spor í, er sömuleiðis ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ítrekað reynt að stinga hinn karlmannin með hnífi. Manninum tókst að komast undan á hlaupum.

Ákæruvaldið krefst þess að mennirnir verði báðir dæmdir til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar auk þess sem haldlögðu munirnir, hafnaboltakylfa og hnífur verði gerðir upptækir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×