Erlent

„Okkar hlutverk að sigra Donald Trump“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hvíta húsið leyndi fleiri viðkvæmum símtölum Donalds Trump Bandaríkjaforseta en símtali hans og Úkraínuforseta þar sem Trump bað hann að rannsaka Joe Biden, líklegan forsetaframbjóðenda Demókrata, og son hans. Biden sótti hart að Trump í ræðu sem hann flutti stuðningsmönnum sínum í gær.

Það hefur gustað um Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að birt var eftirskrift úr símtali hans við Volodímír Selenskí Úkraínuforseta þar sem Trump bað hinn síðarnefnda að rannsaka Joe Biden, einn líklegasta mótframbjóðanda Trump í forsetakosningunum á næsta ári. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings rannsakar nú hvort Trump hafi framið embættisbrot.

Sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í Úkraínu sagði skyndilega af sér í gær. Í dag greindu fjölmiðlar vestanhafs svo frá því að Hvíta húsið hafi einnig vistað eftirskrift af símtölum forsetans við Pútín Rússlandsforseta og konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu á tölvukerfi sem aðeins er ætlað fyrir háleynilegar upplýsingar. 

Sjá einnig: Hvíta húsið leyndi fleiri símtölum Trump við Pútín og Sáda



Joe Biden ávarpaði stuðningsmenn sína í Las Vegas í gær en mótmælandi truflaði ræðuna, að því er virðist í þeim tilgangi að minna á þær ásakanir sem fram hafa komið á hendur Biden um ósæmilega hegðun gagnvart konum. En Biden sótti hart að Trump þegar ræðan hélt áfram.

„Í ljósi þess að samkvæmt síðustu 70 skoðanakönnunum þyki ég líklegri en hann til að vinna þá kemur ekki á óvart að hann skuli beina athygli sinni að mér,“ sagði Biden. „Á næstu vikum og mánuðum er það verkefni þingsins að finna staðreyndirnar og láta Donald Trump axla ábyrgð. Á meðan er það hlutverk mitt, og hlutverk okkar, að tryggja umfram allt að við sigrum Donald Trump.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×