Innlent

Ferða­menn hætt komnir í Reynis­fjöru í dag

Sylvía Hall skrifar
Mikill öldugangur og vindur var í Reynisfjöru í dag þegar ferðamenn spókuðu sig um í fjörunni. Í myndbandi sjást öldurnar ná töluverðum hæðum áður en þær koma að landi af miklum þunga.

Ferðamennirnir standa í flæðarmálinu að taka myndir og virða fyrir sér brimið þegar alda kemur að landi, skellur síðan á þeim og sópar þeim með sér innar í fjöruna. Viðstaddir brugðust þó fljótt við og komu fólkinu til aðstoðar og aftur á fætur.

Litlu mátti muna að verr færi en ítrekað hefur verið sagt frá atvikum þar sem ferðamenn eru hætt komnir í fjörunni. Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og hafa verið sett upp viðvörunarskilti sem ferðamenn virða ítrekað að vettugi.

Skilti sem sett var upp í Reynisfjöru.
Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir

Stungu sér til sunds í Reynisfjöru

Birkir Örn Fanndal Kárason, bílstjóri og leiðsögumaður, náði í dag myndbandi af konu og barni sem stungu sér til sunds í sjónum við Reynisfjöru. Engan sakaði en við Reynisfjöru eru skilti sem vara við því að koma nálægt sjónum vegna fjölda banaslysa sem hafa orðið í fjörunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×