Íslenski boltinn

Túfa: Brekkan hefur verið meirihluta sumars og það er ekkert nýtt

Gabríel Sighvatsson skrifar
Srdjan Tufegdzic.
Srdjan Tufegdzic. vísir/daníel
Srdjan Tufegdzic eða Túfa, þjálfari Grindavíkur, var ekki ánægður með uppskeruna í dag en lið hans náði einungis í eitt stig gegn ÍA í dag.

„Þetta leggst ekki vel í mig, ég held við áttum skilið sigur í dag miðað við hvernig liðið spilaði. Miðað við að vera í basli þá er þetta skrifað í skýin að fyrsta skotið á markið okkar er aukaspyrna sem Stefán setur í vinkilinn.“

Grindavík byrjaði ekki vel en átti heilt yfir fínan leik. Þeir voru mjög afgerandi í seinni hálfleik þar sem þeir uppskáru jöfnunarmarkið.

„Við fáum nóg af færum í dag, við skorum mark sem ég verð að sjá til á morgun, mér fannst dómarinn leyfa markið og svo er það dæmt af.“

„Við gáfumst aldrei upp og ég er stoltur af því hvernig liðið mitt spilaði í dag á einum erfiðasta útivellinum uppi á Skaga og sérstaklega í þeirri stöðu sem við erum í í dag.“

Túfa var mjög svekktur með niðurstöðuna og fannst þeir hafa átt meira skilið úr þessum leik.

„Klárlega, mér fannst við betra liðið, sérstaklega í seinni hálfleik. Við héldum boltanum vel og sköpuðum færi og sköpuðum hættu en það vantar hjá okkur eins og í allt sumar að skora meira en eitt mark til að vinna leiki.“

Grindavík er í mjög erfiðri stöðu en þeir þurfa að vinna báða leikina sem liðið á eftir til að eiga möguleika á að halda sér upp í deildinni. Túfa var þrátt fyrir það nokkuð brattur á því.

„Þetta er ekki búið, það er kannski 1% möguleiki fyrir okkur og við höldum áfram á meðan. Brekkan hefur verið meirihluta sumars og það er ekkert nýtt. Ég er þannig gerður að þó það sé aðeins 1% möguleiki á að við björgum okkur þá ætlum við ekkert að hætta. Það þarf engan sérfræðing til að teikna þetta upp en á meðan það er möguleiki þá ætlum við að berjast fyrir því,“ sagði Túfa að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×