Innlent

Mörg dæmi um utanvegaakstur við Friðland að Fjallabaki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum.
Ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum. Mynd/Umhverfisstofnun
Landverðir Umhverfisstofnunar við Friðland að Fjallabaki hafa undanfarna daga orðið varir við ummerki eftir mikinn utanvegaakstur við Sigölduleið. Margir bílar lentu í vandræðum þar vegna snjókomu um helgina og virðist sem svo að margir hafi ekið utan vegar til að forðast skafla.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar þar sem segir að vegna snjókomu og skafrennings aðfararnótt sunnudagsins 15. september hafi margir bílar lent í vandræðum og fest sig á Sigölduleið.

Var vegurinn því í kjölfarið merktur ófær í samvinnu við Vegagerðina. Á vef Umhverfisstofnunar segir að svo virðist sem að margir hafi tekið þá ákvörðun að aka utan vegar til þess að forðast skafla sem safnast hafi upp á veginum.

„Landverðir urðu varir við mikinn utanvegaakstur á svæðinu og var sá lengsti um tveggja kílómetra langur. Landverðir hafa unnið við að afmá förin sem er tímafrekt verkefni en nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að aðrir bílar aki eftir hjólförum sem hafa myndast utan vega,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Veður er slæmt á svæðinu og hefur vegurinn aftur verið merktur ófær.

Á vef Umhverfisstofnunar eru ökumenn minntir á að þótt næturfrost og snjókoma hafi verið undirfarið á hálendinu er jörð ekki frosin og allur utanvegaakstur bannaður samkvæmt lögum um náttúruvernd. Ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×