Erlent

Innan­ríkis­ráð­herrann verði nýr for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Giorgi Gakharia.
Giorgi Gakharia. Innanríkisráðuneyti Georgíu.
Stjórnarflokkurinn í Georgíu, Georgískur draumur, hefur tilnefnt innanríkisráðherrann Giorgi Gakharia sem nýjan forsætisráðherra landsins.

Mamuka Bakhtadze greindi frá því í gær að hann hugðist hætta sem forsætisráðherra eftir um ár í embætti. Bakhtadze greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að hann hafi „klárað áætlunarverk“ sitt og því ákveðið að hætta.

Mikil spenna hefur verið í georgískum stjórnmálum síðustu mánuði en forseti þingsins sagði af sér í sumar eftir mikil mótmæli á götum höfuðborgarinnar Tbilisi sem blossuðu upp eftir að rússneskum stjórnmálamanni var boðið að halda ræðu í þingsal.

Samskipti Georgíu og Rússlands eru eitt helsta átakamálið í georgískum stjórnmálum, en Georgía hefur átt í nánum samskiptum við Bandaríkin eftir að til átaka kom milli Rússa og Georgíumanna árið 2008.

Bakhtadze er fjórði forsætisráðherrann til að segja af sér í landinu á síðustu sjö árum.

Hinn 44 ára Gakharia hefur gegnt embætti innanríkisráðherra frá nóvember 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×