Innlent

Ákærður fyrir innflutning á amfetamíni og sterum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Farþeginn kom til landsins með flugi WOW air þann 1. febrúar síðastliðinn.
Farþeginn kom til landsins með flugi WOW air þann 1. febrúar síðastliðinn. Vísir/JóiK
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur þrítugum karlmanni fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 900 millilítra af vökva sem innihélt amfetamín sem hafði 47 prósent á styrkleika. Er talið að efnið hafi verið ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Fíkniefnin voru flutt til Íslands en hann var farþegi með flugi frá Katowice í Póllandi til Keflavíkurflugvallar þann 1. febrúar. Tollverðir fundu fíkniefnin falin í áfengisflösku í farangri hans.

Þá er karlmaðurinn sömuleiðis ákærður fyrir tolla-, lyfsölu og lyfjalagabrot með því að hafa við fyrrnefnda komu til landsins gengið um tollhlið með áletruninni „Enginn tollskyldur varningur“ og þannig flutt til landsins og reynt að komast hjá því að greiða tollyfirvöldum sterum sem hann hafði í fórum sínum.

Um var að ræða átta stykki af Cabergoline, 42 stykki af Alpha-Lactose Monohydrate, 720 ml af Testosterone Propinate, 25 stykki af Oxymetholone og 20 stykki af Novothyral, sem hann hafði ekki innflutningsleyfi fyrir.

Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×