Bíó og sjónvarp

Halda opnar prufur fyrir Eurovision-myndina á Húsavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni.
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni. Vísir/Getty
Opnar prufur fyrir Eurovision-mynd Will Ferrell verða haldnar í húsnæði Leikfélags Húsavíkur næstu daga. Greint er frá þessu á Facebook-síðu Eskimo Casting en þar er ekki tilgreint hvaða verkefni þetta er.

Búið var að boða að Eurovision-myndin verði tekin upp á Húsavík og miðað við hvernig hlutverkunum er lýst á síðunni má ætla að það tengist þessari mynd.

Sér í lagi vegna þess að leitað er að bassaleikara á besta aldri, 55 til 70 ára, karlkyns harmonikku leikara og þrettán til sextán ára gömlum strák sem kann á trommur.

Þá er einnig leitað að karlmanni sem kann að rýgja rollu, karlmanni sem kann að slægja fisk og hjónum á besta aldri.

Eru allir áhugasamir velkomnir að sækja um og eru bæjarbúar hvattir til að láta orðið berast.

Fara prufurnar fram á milli klukkan 16 og 20 í dag, morgun og föstudag.





Eurovision-myndin mun segja frá þeim Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottur sem Will Ferrell og Rachel McAdams leika. Þau munu fá það einstaka tækifæri að vera fulltrúar Íslands í Eurovision. Er eyðimerkur ganga Íslendinga sögð eiga að vera ein af þungamiðjum myndarinnar. Ísland hefur tekið þátt í Eurovision frá árinu 1986 en aldrei unnið.

Pierce Brosnan mun leika föður Will Ferrells í myndinni en sá á að vera myndarlegasti maður Íslands.

Björn Hlynur Haraldsson mun leika fyrrverandi kærasta Rachel McAdams og á að vera fremur ósáttur við að hún sé eitthvað að hanga með persónu Will Ferrell í myndinni.

Bandaríska söngkonan Demi Lovato hefur verið ráðin til að leika Katiönu í þessari mynd en sú á að vera besta söngkona Íslands.

Á persóna Rachel McAdams að kom frá smábæ á Íslandi en þær senur verða teknar upp á Húsavík eins og Vísir hefur greint frá. Björn Hlynur greindi frá því í samtali við Vísi að hann hefði rætt við Rachel McAdams á tökustað myndarinnar í Lundúnum. Þar sagði hann McAdams frá því að ein af stærstu Eurovision-stjörnum Íslands, Birgitta Haukdal, kæmi frá Húsavík en McAdams hafði ekki hugmynd um hver Birgitta Haukdal var þegar hún ræddi við Björn Hlyn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×