Innlent

Bjóst ekki við að aftökurnar væru svo margar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði.
Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði. Mynd/Kristinn Ingvarsson
Kortasjá um aftökur á Íslandi verður opnuð klukkan 15 í dag. Hún er unnin í tengslum við verkefnið Dysjar hinna dæmdu sem hrundið var af stað 2018. Þeir sem unnið hafa að verkefninu rannsökuðu dómabækur og annála í leit að dauðadómum. Þegar hafa fundist 248 dómar en Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur segir að líklega séu þeir mun fleiri.

„Ég bjóst ekki við því að þetta væru svona margar aftökur,“ segir hún og nefnir sérstaklega tímabilið 1582 til 1792, þar sem var meira en ein aftaka á ári. Hún segir mikilvægt að fjalla um þennan tíma þótt hann sé ekki til að vekja þjóðarstolt.



Árið 1696 var Vigdísi Þórðardóttur drekkt í Elliðaá. Fréttablaðið/Andri
Flestar aftökur voru gerðar á suðvesturhorninu, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Húnavatnssýslum og í Eyjafirði. Færri í Skagafirði, Þingeyjarsýslum, á Austurlandi og aðeins ein í Skaftafellssýslum. Eitt af því sem er til rannsóknar núna er hvort sýslumenn hafi sýnt mismikla hörku. Þekkt er framganga Þorleifs Kortssonar, sýslumanns í Strandasýslu, í galdrafárinu á 17. öld.

Yfirleitt voru karlar höggnir, konum drekkt, þjófar hengdir og nornir brenndar. Þriðjungur málanna eru þjófnaðir og þriðjungur blóðskömm og dulsmál. Aðrir stórir flokkar eru morð og galdrar. Sjötíu prósent þeirra líflátnu voru karlar og 30 prósent konur.

„Þetta var eiginlega allt lágstéttarfólk og oftast í yngri kantinum,“ segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×