Íslenski boltinn

Patrik Sigurður ætlar sér stóra hluti hjá Brentford

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson.
Patrik Sigurður Gunnarsson. Getty/Ker Robertson
Patrik Sigurður Gunnarsson er annar af tveimur markvörðum íslenska U21 árs landsliðsins sem mætir Lúxemborg á Víkingsvelli í dag.

Patrik er á mála hjá enska B-deildarliðinu Brentford og gerði nýverið nýjan fjögurra ára samning við félagið eftir að hafa komið frá Breiðabliki í fyrra.

Eins og er gengur mér bara vel. Það er búið að ganga vel síðan ég fór út fyrir rúmu ári. Það er allt á beinu brautinni,“ sagði Patrik í samtali við Arnar Björnsson.

Þrátt fyrir ungan aldur er Patrik kominn í aðalliðshóp Brentford en þessi efnilegi knattspyrnumaður er með báða fætur á jörðinni þó hann hafi háleit markmið.

„Það er markmiðið að verða aðalmarkvörður félagsins. Ég er með langtímamarkmið. Ég er enn bara 18 ára og er bara að æfa á fullu. Hitt kemur seinna meir,“ segir Patrik.

Hann kveðst ánægður með umgjörðina hjá Brentford og hrósar markvarðaþjálfara félagsins í hástert.

„Ég er með frábæran þjálfara. Hann heitir Inaki og er spænskur. Hann var með Rúnar Alex hjá Nordsjælland. Ég held hann sé einn sá besti í bransanum svo ég er í góðum höndum,“

Viðtalið við Patrik í heild sinni má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×