Innlent

Lyklaskipti að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lyklaskipti munu fara fram í dómsmálaráðuneytinu að loknum ríkisráðsfundi að Bessastöðum. Á ljósmyndinni hér að neðan, sem tekin er árið 2017, sjást vinkonurnar og samherjarnir Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún.
Lyklaskipti munu fara fram í dómsmálaráðuneytinu að loknum ríkisráðsfundi að Bessastöðum. Á ljósmyndinni hér að neðan, sem tekin er árið 2017, sjást vinkonurnar og samherjarnir Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún. FBL/Eyþór Árnason

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekur við embætti dómsmálaráðherra í dag. Hún segir að það sé of snemmt að segja til um það hvort áherslubreytingar verði með hana í brúnni en Áslaug Arna er þó sannfærð um að hún muni setja sitt mark á embættið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti fjölmiðlum að loknum þingflokksfundi í gær að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir væri næsti dómsmálaráðherra.

Það er stór dagur framundan hjá Áslaugu Örnu en ríkisráð kemur saman að Bessastöðum klukkan fjögur en þar mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi dómsmálaráðherra, formlega láta af embætti. Að loknum ríkisráðsfundi halda þær Þórdís og Áslaug Arna halda upp í dómsmálaráðuneyti þar sem lyklaskipti fara fram.

„Ég er mjög spennt fyrir þessum komandi verkefnum sem bíða mín og að starfa með þessu góða fólki í þessu ráðuneyti að öllum þessum fjölmörgu verkefnum.“

Aðspurð hvort hún muni gera miklar breytingar í ráðuneytinu segir Áslaug Arna að of snemmt sé að segja til um það.

„Ég er að ganga inn í ákveðna ríkisstjórn og við vinum eftir ákveðnum sáttmála en ég mun alveg setja mitt mark á embættið eins og flestir ráðherrar gera og það verður auðvitað að koma í ljós. Þetta bar mjög brátt að. Ég er auðvitað bara að taka við núna á eftir.“

Hún segist þó hafa sínar hugmyndir og mikinn metnað fyrir embættinu.

„Já, þetta eru auðvitað margir málaflokkar sem fara þarna undir. Og ég hef mikinn áhuga á þeim. Ég starfaði sem lögreglumaður og þekki svona þá hlið vel og er auðvitað menntaður lögfræðingur líka. Ég er auðvitað bara spennt að takast á við þær ýmsu áskoranir sem eru þarna undir.“

Nú velta margir fyrir sér hvort hin nýja skipan muni þýða stefnubreyting í málefnum innflytjenda og hælisleitenda.

„Bara eins og ég sagði áðan þá er ég auðvitað að ganga inn í ákveðna ríkisstjórn og svo verð ég bara að fá tíma til að koma mér inn í málaflokkana og ráðuneytið og svo kemur það bara í ljós,“ segir Áslaug Arna sem tekur við embættinu í dag.

Það kemur í ljós á þriðjudag hvort efri deild mannréttindadómstóls Evrópu taki fyrir Landsréttarmálið. Áslaug Arna segir að ríkisstjórnin sé viðbúin niðurstöðunni.


Tengdar fréttir

Áslaug Arna nýr dómsmálaráðherra

Bjarni Benediktsson tilkynnti að Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir tæki við dómsmálaráðuneytinu eftir fund þingflokks sjálfstæðismanna í Valhöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×