Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - Víkingur R. 1-3 | Kári með tvö í sigri Víkinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Víkingar fagna marki.
Víkingar fagna marki. vísir/daníel
Víkingar unnu sanngjarnan 3-1 sigur á HK í Kórnum í dag. Með sigrinum fara Víkingar langt með að tryggja sæti sitt í Pepsi Max-deildinni en HK missti af gullnu tækifæri að jafna Stjörnuna að stigum og komast í 4.sætið.

Víkingar voru sterkari aðilinn nánast frá upphafi í dag. HK gekk bölvanlega að byggja upp spil og héldu boltanum illa. Víkingar sköpuðu sér ekki mörg færi en voru ógnandi og náðu oft ágætis spili.

Á 23.mínútu kom Kári Árnason gestunum yfir. Hann var grimmastur í markteignum þegar hann potaði boltanum inn eftir að Arnar Freyr Ólafsson í marki HK hafði varið skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu Víkinga.

HK-ingar komu með aðeins meiri kraft inn í síðari hálfleikinn og tókst að jafna metin á 48.mínútu þegar Valgeir Valgeirsson skoraði með góðu skoti úr teignum.

Víkingar voru hins vegar ekki lengi að svara. Kári skoraði þá aftur eftir hornspyrnu frá Ágústi Eðvaldi Hlynssyni og á 59.mínútu kom Guðmundur Andri Tryggvason Víkingi í 3-1 eftir mistök hjá Birni Snæ Ingasyni sem sendi boltann beint í fæturnar á Atla Hrafni Andrasyni sem lagði upp markið fyrir Guðmund Andra.

Eftir þetta var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda. Víkingar héldu boltanum ágætlega og í þau fáu skipti sem HK-ingar gerðu sig líklega til að ógna þá réði vörn Víkinga fremur auðveldlega við þá.

Lokatölur 3-1 og Víkingar nánast tryggðu sæti sitt í deildinni með þessum sigri.

Af hverju vann Víkingur?

Þeir voru einfaldlega betra liðið í dag. HK komst aldrei í takt við leikinn og Víkingar voru rólegri á boltanum og áttu auðveldara með að finna mann til að gefa á.

Vörn Víkinga gaf fá færi á sér og sofnaði í raun aðeins einu sinni á verðinum. Brynjar Björn þjálfari HK sagði frammistöðu sinna manna hafa verið slaka og það er óhætt að taka undir það.

Þessir stóðu upp úr:

Kári Árnason var frábær í liði Víkinga og kemur í góðu formi til móts við landsliðið. Fyrir utan mörkin tvö sem hann skoraði var hann öruggur í öllum sínum aðgerðum, stýrði vörninni ásamt Sölva og vann skallabolta í gríð og erg.

Sölvi spilaði sömuleiðis vel og þá voru þeir Ágúst Eðvald og Guðmundur Andri ógnandi í sóknarleiknum.

Hjá HK var fátt um fína drætti og líklegast um að ræða þeirra slakasta leik í sumar.

Hvað gekk illa?

HK gekk illa með flest í sínum leik. Þeir virtust engan veginn tilbúnir í baráttuna og vonin sem þeir vöktu í brjóstum stuðningsmanna sinna í upphafi seinni hálfleiks var fljót að hverfa.

Þeir höfðu gullið tækifæri til að blanda sér af fullri alvöru í baráttuna um Evrópusæti og nýttu sér það ekki.

Hvað gerist næst?

Framundan er landsleikjapása. Strax að henni lokinni eiga Víkingar framundan bikarúrslitaleik gegn FH sem þeir geta nú einbeitt sér að. Næsti leikur þeirra í deildinni verður gegn Fylki á útivelli.

HK leikur næst gegn KA á Akureyri og Brynjar Björn hefur nú góðan tíma til að fara yfir það sem fór úrskeiðis í leiknum í dag.

Brynjar Björn: Eins og menn vildu vera einhvers staðar annars staðar en inni á vellinum
Brynjar Björn sagði að sínir menn hefðu verið slakir í dag.vísir/DANÍEL
„Frammistaðan var slök, mjög léleg. Mér fannst leikurinn í heildina lélegur. Víkingur skapaði varla færi en skora tvö mörk eftir horn," sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK eftir tapið gegn Víkingi í Pepsi Max-deildinni í dag.  

„Sama með okkur, við sköpum sáralítið. Við komumst aðeins inn í leikinn í byrjun seinni hálfleiks en fyrir utan það var þetta gríðarlega lélegur fótboltaleikur.“

Í lið HK vantaði Ásgeir Börk Ásgeirsson og Arnþór Ara Atlason en þeir voru báðir í leikbanni.

„Það var ekki það sem vantaði, heldur eitthvað hugarfar og hvernig menn komu inn í leikinn. Það var eins og menn vildu vera einhvers staðar annars staðar en inni á vellinum og það er mjög óþægilegt fyrir þjálfara að upplifa það.“

„Við klárum bara leikinn, æfum á morgun og förum svo bara í næsta leik. Það er ekkert annað að gera,“ bætti Brynjar Björn við.

Í ljósi úrslita umferðarinnar hlýtur tapið að vera sérstaklega svekkjandi fyrir HK-inga, en með sigri hefðu þeir farið upp í 4.sæti deildarinnar og uppfyrir Stjörnuna á markatölu.

„Við eigum ekki skilið það tækifæri með svona frammistöðu og svona spilamennsku. Hvað sem önnur lið gera og hvernig sem önnur úrslit eru þá skiptir það ekki máli. Þetta var svo dapurt að ég á eiginlega ekki orð yfir það.“

Arnar: Hann hefur mörk í sér drengurinn
Arnar sagði menn vera spennta fyrir bikarúrslitaleiknum 14.septembervísir/bára
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga sagði frammistöðu Víkinga hafa verið fagmannlega í sigrinum gegn HK.

„Það er erfitt að eiga við okkur í svona ham. Við héldum boltanum vel og þreyttum þá. Ég veit ekki hvað við fengum margar hornspyrnur en það vantaði kannski dauðafærin.“

Arnar hló þegar blaðamaður spurði hann út í mörkin tvö sem Kári gerði.

„Hann hefur alveg mörk í sér drengurinn. Við höfum fengið mikið af hornspyrnum án þess að vera að nýta þær en við erum ógnandi í hornspyrnum með okkar turna. Sölvi var líka óheppinn að setja hann ekki í dag.“

„Fyrst og fremst er ég ánægður með strákana. Við erum að stefna á efstu fimm sætin, þetta er sterkur heimavöllur sem HK er búið að byggja upp hérna og við klárum þá með stæl.“

Með sigrinum fjarlægjast Víkingar fallbaráttuna og eftir úrslit umferðarinnar eru þeir ekki ýkja langt frá liðunum í efri hlutanum.

„Við erum á góðu róli. Við erum loksins farnir að vinna svona leiki. Við breyttum aðeins í taktínni í dag og ég held að við höfum komið þeim aðeins á óvart. En það þarf líka að vera ákefð og menn þurfa að vera einbeittir. Við sáum í dag að menn eru að spila með sæti í byrjunarliði, í stóra leiknum þann 14.september, undir."

Aðspurður hvort landsleikjahléið kæmi á slæmum tíma þegar liðið væri í svona góðu formi sagði Arnar að það væri ágætt fyrir suma að fá hvíld.

„Gömlu kallarnir hafa svo sem gott af þessu. Þegar við erum á jafn góðu róli og við þá viltu auðvitað fá leikinn sem fyrst. Það verða fimm leikmenn í burtu í landsliðsverkefnum. Það er svolítið ný staða fyrir Víkinga að vera með fimm leikmenn í svona verkefnum. Það er ekkert kjörinn undirbúningur en við verðum klárir í úrslitaleikinn.“

„Það er hrikalega tilhlökkun. Við viljum tala leikinn upp og ég er ekki á því að þetta eigi að vera eins og hver annar leikur. Menn eiga að vera vel spenntir en hafa rétt spennustig. Við erum búnir að vera nálægt fallbaráttu í sumar en það hefur enginn innan klúbbsins talað um fall. Við höfum haldið okkar striki með það sem við byrjuðum á í október í fyrra og nú er sú vinna að skila sér.“

Kári: Held að þetta hafi aldrei gerst
Kári var frábær í dag.vísir/bára
Kári Árnason skoraði tvö mörk fyrir Víkingi í 3-1 sigri þeirra á HK í dag. Kári var vitaskuld ánægður eftir leik.

„Það var lykilatriði að ná í þrjú stig í dag til að blanda sér aðeins í efri baráttuna og gefa okkur smá andrými svo við getum einbeitt okkur almennilega að bikarúrslitaleiknum sem er mjög stór í sögu Víkings,“ en Víkingar leika við FH í úrslitum bikarsins 14.september.

„Ég held það hafi bara aldrei gerst,“ sagði Kári aðspurður hvort það væri ekki langt síðan hann skoraði tvö mörk í leik.

„Ég hef verið nálægt því en ekki tekist ennþá þangað til núna.“

Aðspurður um stöðuna í deildina sagði Kári að Víkingar væru rólegir en Arnar Gunnlaugsson nefndi í viðtali að þeir vildu gera atlögu að fimm efstu sætunum.

„Við erum ekkert að fara fram úr okkur. Það er stígandi í þessu hjá okkur og við lítum betur og betur út. Við höfum verið með spræka stráka fram á við en verið barnalegir í varnarleiknum. Þetta er allt að koma og ég held við getum blandað okkur í hvað sem er.“

„Það eru þrír leikir eftir og við stefnum náttúrulega bara á að taka fullt hús úr þeim og sjá hvert það fer með okkur ef það tekst. Við ætluðum okkur að vera yfir ofan Val í ár og vonandi tekst það.“

Kári sagði mikla stemmningu fyrir bikarúrslitaleiknum þann 14.september.

„Það er gríðarleg eftirvænting og spenna fyrir þessum leik. Það er gaman að finna fyrir því og maður finnur fyrir meðbyr í Víkinni, að það sé eitthvað að fara að gerast. Það er aðeins of seint að ætla að berjast um Íslandsmeistaratitil núna en það er aldrei að vita hvað næstu ár hafa í för með sér.“

Áður en kemur að bikarúrslitaleiknum er Kári á leið í landsliðsverkefni þar sem Ísland mun leika gegn Moldovíu og Albaníu í undankeppni Evrópumótsins.

„Það er langt í næsta leik í deild og leiðinlegt að fara í landsleikjapásu með tap á bakinu og vera í einhverjum vandræðum. Það er fínt að fá sjálfstraustið í botn í hornunum,“ en bæði mörk Kára í dag komu eftir hornspyrnur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira