Erlent

Boris segir írsku baktrygginguna vera ólýðræðislega

Andri Eysteinsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Getty/WPA Pool
Boris Johnson forsætisráðherra Breta segir í bréfi til Evrópusambandsins að írska baktryggingin, einn helsti ásteitingarsteinninn í útgöngusamningum Breta og ESB vegna Brexit, sé andlýðræðisleg og alls ófær. Því verði Evrópusambandið að falla frá þeirri kröfu.

Í bréfinu, sem stílað er á Donald Tusk forseta leiðtogaráðs ESB, segir að baktryggingin, sem ætlað er að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands við útgöngu Bretlands, sé ógn við friðarferlið á Norður-Írlandi. Johnson fullyrðir einnig að verði baktryggingin felld úr gildi verði lítið mál að koma útgöngusamningnum í gegnum breska þingið, en hann hefur nú verið felldur þrívegis þar.

Tusk hefur enn ekki svarað bréfinu en allir helstu fulltrúar Evrópusambandsins hafa ávallt sagt að baktryggingin sé lykilforsenda útgöngusamningsins.

Johnson hefur undanfarið rætt í nokkur skipti við forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar. Varadkar hefur í samtölum við Johnson ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að ótækt sé að baktryggingin verði felld úr samningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×