Erlent

Qantas prufukeyrir 19 tíma flugferðir

Andri Eysteinsson skrifar
Qantas er stærsta flugfélag Ástralíu.
Qantas er stærsta flugfélag Ástralíu. Getty/Scott Barbour
Ástralska flugfélagið Qantas gælir nú við þá hugmynd að hefja áætlanaflug frá Sydney til stórborganna London og New York. Flug milli borganna er talið taka rúma 19 klukkutíma og yrði það því lengsta áætlunarflug sem boðið er upp á. BBC greinir frá.

Þrjár ferðir verða farnar með fullri áhöfn og fjörutíu farþegum. Heilbrigðisstarfsmenn munu fylgjast með líðan farþega og áhafnar til þess að athuga hvernig svo löng flugferð fari með líkama og sál. Einnig verður fylgst með svefn- og matarvenjum farþega og áhafnar á svo langri ferð.

Ef forráðamönnum Qantas lýst vel á niðurstöður tilraunaflugsins stefnir félagið á að hefja flug milli Sydney og New York/London fyrir árið 2022. Flogið verður með Boeing 787-9 vélum.

Í dag er lengsta áætlunarflug sem býðst flug Singapore Airlines frá New York til Singapúr. Flognir eru 15.344 kílómetrar og tekur flugið um 18 og hálfa klukkustund að meðaltali. Það áætlunarflug hófst á síðasta ári.

Lengsta flug sem Qantas býður upp á er flug milli borganna Perth og London, 14.449 kílómetrar og 17 klukkustundir og tuttugu mínútur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×