Fótbolti

Of ung til að spila með félagsliði sínu en má spila með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Velska landsliðið.
Velska landsliðið. Mynd/Heimasíða velska sambandsins
Carrie Jones er ekki orðin sextán ára gömul og má því ekki enn spila með meistaraflokksliði Cardiff City. Hún hefur hins vegar valin í landsliðshóp Wales fyrir leik í undankeppni EM 2021.

Það er því mjög líklegt að hennar fyrsti meistaraflokksleikur verði með A-landsliði þjóðar hennar en ekki með félagsliðinu.

Wales mun spila á móti Færeyjum 28. ágúst og gegn Norður-Írlandi 3. september.

Carrie Jones er nemi The Newtown High School og verður ekki sextán ára fyrr en eftir landsleikjahléð. Hún má ekki spila með Cardiff City áður en hún verður sextán. Það eru aftur á móti engar aldursreglur þegar kemur að A-landsliði Wales.

Carrie Jones er mjög efnileg knattspyrnukona og hefur spilað fyrir bæði fimmtán og sautján ára landslið Wales.





Það spilar vissulega inn í þessa ákvörðun landsliðsþjálfarans að tveir lykilmenn á miðju landsliðsins, Jess Fishlock og Rachel Rowe, slitu krossband. Hópurinn hefur því þynnst snögglega.

„Ég bjóst ekki við því að vera valin því ég hef bara verið að einblína á sautján ára landsliðið. Ég vissi samt alveg að þessir leikir í undankeppninni væru á dagskránni. Ég hef lagt mikið á mig til að komast hingað og hingað er ég komin,“ sagði Carrie Jones í viðtali við breska ríkisútvarpið.

„Ég byrjaði að spila fótbolta þegar ég var sjö ára og byrjaði að spila með strákaliði. Áður hafði ég spilað fótbolta á móti eldri frændum mínum. Frændur mínir eru miklir fótboltaáhugamenn og við í fjölskyldunni vorum vön að spila fimm á fimm á bóndabýli ömmu minnar. Þar byrjaði þetta allt,“ sagði Carrie Jones.

„Þegar ég var að spila með strákaliðinu Newtown White Stars þá birtist einhver regla um að ég mætti ekki spila með strákum fyrr en ég væri tólf ára. Þá fór ég að spila með stelpum en byrjaði strax aftur að æfa með strákunum þegar reglan datt aftur út. Ég var að spila með strákunum á síðasta tímabili,“ sagði Carrie Jones.

„Ég mun spila með Cardiff City á næsta ári og það er örugglega mikill munur á því að spila á móti fullorðnum konum en að spila á móti strákum,“ sagði Carrie.

Carrie frétti af því að hún væri komin í A-landsliðið í afmælismatarboði föður hennar.

Það má lesa meira um hana með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×