Enski boltinn

Guardiola telur Man City geta gert betur en í fyrra

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/getty
Pep Guardiola, stjóri Englandsmeistara Man City, kveðst sannfærður um að lið sitt geti náð í fleiri stig í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en í fyrra þrátt fyrir að liðið hafi glatað stigum strax í 2.umferð þar sem Man City gerði jafntefli við Tottenham um síðustu helgi.

Man City vann deildina með því að innbyrða 98 stig á síðustu leiktíð; einu stigi meira en Liverpool sem er nú með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en Man City leikur gegn Bournemouth í 3.umferð deildarinnar í dag.

„Ég trúi ekki á tölfræði. Ég trúi frekar á andrúmsloftið (e. spirit) og ég get fundið það. Miðað við spilamennskuna og hvernig við spiluðum gegn Tottenham tel ég að við getum gert það,“ segir Guardiola.

Spánverjinn greinilega virkilega ánægður með spilamennsku sinna manna þrátt fyrir jafnteflið.

„Jafnvel þó við höfum gert jafntefli sýndi þessi leikur að við getum gert betur en í fyrra. Við spiluðum betur en þegar við unnum Chelsea 6-0 á síðustu leiktíð. Gæði leiksins voru svo góð. Þetta var ótrúlegt.“

„Ef við höldum áfram því sem við erum að gera á æfingasvæðinu og þessi samkeppni innan liðsins heldur áfram getum við gert betur en í fyrra,“ segir Guardiola.

Man City heimsækir Bournemouth í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×