Innlent

Fundu bakpoka í flæðarmálinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leitinni við Þingvallavatn nú síðdegis.
Frá leitinni við Þingvallavatn nú síðdegis. Mynd/Landsbjörg
Enn er gengið út frá því að manneskja hafi verið í bátnum sem fannst mannlaus á floti í Þingvallavatni síðdegis í dag. Leitarmenn fundu bakpoka í flæðarmálinu fyrir skömmu, sem kann að gefa vísbendingu um mannaferðir. Um sjötíu manns taka nú þátt í leitinni og hefur bæst nokkuð í mannskapinn síðan tilkynning um bátinn barst á fimmta tímanum.

Davíð Már Björgvinsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi að björgunarfólk hafi í kvöld gengið milli sumarbústaða og tjaldstæða við vatnið til að afla upplýsinga um mögulegar ferðir bátsins. Davíð segir bátinn lítinn „hobbíbát“ sem rúmi líklega aðeins eina manneskju, þó engin staðfesting hafi fengist um að nokkur hafi verið um borð.

Þá er einnig leitað á bátum í vatninu og leitarmenn njóta auk þess aðstoðar leitarhunda. Aðallega er leitað syðst í vatninu, við Villingavatn.

Davíð segir aðstæður til leitarinnar ekki beint erfiðar en mikill öldugangur sé þó í vatninu, sem gerir leitarmönnum á bátum nokkuð erfitt fyrir. Þess vegna var óskað eftir stærri bátum frá Reykjavík til aðstoðar. Gert er ráð fyrir að leit standi yfir fram eftir kvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×