Erlent

„Alvarlegir misbrestir“ í fangelsinu þar sem Epstein lést

Kjartan Kjartansson skrifar
Barr sagðist reiður og hneykslaður á að fangelsisyfirvöld hafi ekki tryggt örygg Epstein í fangelsinu á Manhattan.
Barr sagðist reiður og hneykslaður á að fangelsisyfirvöld hafi ekki tryggt örygg Epstein í fangelsinu á Manhattan. Vísir/EPA

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að „alvarlegir misbrestir“ hafi verið í alríkisfangelsinu í New York þar sem Jeffrey Epstein fannst látinn á laugardag. Hann boðar ítarlega rannsókn á hvernig dauða hans bar að. Rannsóknin á glæpum Epstein haldi jafnframt áfram.



Epstein, sem var ákærður fyrir mansal á ungum stúlkum, fannst látinn í klefa sínum á laugardagsmorgun. Hann hafði hengt sig. Fangelsisyfirvöld höfðu tekið hann af sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að aðeins nokkrar vikur væru síðan hann fannst meðvitundarlaus í klefa sínum með áverka á hálsi. Þá var hann talinn hafa reynt að svipta sig lífi.



Síðan þá hafa borist frásagnir af því að mikið álag hafi verið á vörðum í fangelsinu. Þeir hafi ekki litið inn til Epstein í fleiri klukkustundir nóttina sem hann lést. Samkvæmt reglum áttu þeir að líta á hann á hálftíma fresti. Epstein var einnig einn í klefa þó að hann hafi átt að hafa klefafélaga, að sögn Washington Post.



„Við erum nú að komast að alvarlegum misbrestum í þessari aðstöðu sem valda miklum áhyggjum og krefjast ítarlegrar rannsóknar,“ sagði Barr dómsmálaráðherra í dag, að sögn New York Times. Fangelsismálastofnunin heyrir undir dómsmálaráðuneytið.



Lýsti ráðherrann því yfir að rannsókninni á glæpum Epstein yrði ekki hætt þrátt fyrir andlát hans.



„Leyfið mér að fullvissa ykkur um að málið heldur áfram gegn hverjum sem var samsekur Epstein. Samverka menn hans ef einhverjir eru ættu ekki að vera rólegir. Fórnarlömbin verðskulda réttlæti og þau munu fá það,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Verðirnir unnu "gífurlega“ yfirvinnu

Þetta hefur AP-fréttastofan eftir heimildarmanni sínum sem þekkir til í fangelsinu í New York þar sem Jeffrey Epstein var haldið.

Segir sjálfsvíg Epstein „allt of heppilegt“

Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar og forsetaframbjóðandi í forvali Demókrataflokksins fyrir næstu forsetakosningar, segir andlát bandaríska fjárfestisins og milljarðamæringsins Jeffrey Epstein "allt of hentugt“ og hefur kallað eftir ítarlegri rannsókn á tildrögum andláts hans. Epstein er sagður hafa fallið fyrir eigin hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×