Erlent

Bandarískur þingmaður þakkar nauðgunum og sifjaspelli velgengni mannkyns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steve King, þingmaður repúblikana, á fundi í Boone í Iowa fyrir skömmu.
Steve King, þingmaður repúblikana, á fundi í Boone í Iowa fyrir skömmu. Vísir/getty
Steve King, þingmaður repúblikana frá Iowa, rökstuddi í dag frumvarp um algjört bann á fóstureyðingum með því að segja að mannkynið ætti velgengni sína m.a. sifjaspelli og nauðgunum að þakka. Ef ekki væri fyrir slíkt athæfi væri kynstofn manna líklega útdauður.

King, sem er þekktur fyrir andúð sína á innflytjendum og kvenfrelsismálum, lét ummælin falla á morgunverðarfundi í bænum Urbandale í Iowa í dag en hann freistar þess nú að ná endurkjöri í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem hann hefur setið í níu kjörtímabil.

„Ef við litum yfir öll ættartrén og tækjum burt þá sem voru getnir með nauðgun eða sifjaspelli. […] Væri einhver eftir í heiminum ef við gerðum það? Þegar litið er til allra stríðanna og allra nauðgananna og allra ránanna sem fóru fram hjá öllum þessum þjóðum, ég veit að ég get ekki neitað því að vera að hluta til ávöxtur þess,“ sagði King á fundinum.

Sjá einnig: Þingmaður Repúblikana kennir Obama um skotárásina

King er stuðningsmaður frumvarps um algjört bann á fóstureyðingum, einnig þegar um nauðgun eða sifjaspell er að ræða. Hann var að færa rök fyrir stuðningi sínum með áðurnefndum ummælum.

Ummælin hafa vakið mikla reiði síðan fyrst var fjallað um þau í héraðsblaðinu Des Moines Register. Öldungadeildarþingmennirnir Kirsten Gillibrand og Cory Booker, sem bæði eru frambjóðendur í forvali Demókrataflokksins til forsetakosninganna árið 2020, fordæmdu ummælin og kröfðust þess að King segði af sér.

King var sviptur nefndarsætum sínum í þinginu fyrr á þessu ári eftir að hann kom hvítum þjóðernissinnum og öfgamönnum til varnar í viðtali við New York Times í janúar. King velti eftirfarandi upp í viðtalinu: „Hvítur þjóðernissinni, hvítur öfgamaður, vestræn menning. Hvernig varð þessi orðræða móðgandi?“

Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti, með velþóknun, lýst King sem „íhaldssömustu manneskju í heimi“. King hefur jafnframt ítrekað lýst yfir andúð sinni á innflytjendum og stofnað til bandalaga með hægri öfgamönnum í Evrópu, Kanada og víðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×