Erlent

Konungsfjölskyldan segir ásakanir á hendur Andrési prins vera andstyggilegar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Prins Andrés.
Prins Andrés. Vísir/Getty

Andrés prins segist vera hneykslaður á ásökunum um að hann hafi framið kynferðisbrot eftir að breski fjölmiðillinn Mail on Sunday birti myndir af honum og auðkýfinginum Jeffrey Epstein sem teknar voru á heimili Epstein árið 2010.



Mikið hefur verið fjallað um mál Epstein að undanförnu eftir að hann var handtekinn í sumar og ákærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Málið vakti mikla athygli enda átti Epstein háttsetta vini, þar á meðal Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, núverandi forseta og Andrés Prins, bróður Karls Bretaprins. Andrés hefur meðal annars verið sakaður um að misnota stúlkur sem Epstein kom honum í kynni við.



Í yfirlýsingu frá bresku konungsfjölskyldunni sem gefin var út eftir að frétt Mail on Sunday var birt segir að Andrés Prins fyrirlíti alla misnotkun á mannverum og að ásakanir um að hann samþykki, taki þátt eða ýti undir slíka hegðun séu „andstyggilegar“.



Þá segir einnig í yfirlýsingu konugsfjölskyldunnar að Andrés prins sé hneykslaður á nýjustu fregnum af þeim glæpum sem Epstein var sakaður um. Fyrr í mánuðinum framdi Epstein sjálfsmorð í fangelsi í New York þar sem hann var í haldi. Hann hafði áður lýst sig saklausan af þeim ákærum sem hann stóð frammi fyrir.



Var hann meðal annars sakaður um að hafa greitt stúlkum undir lögaldri í skiptum fyrir kynlífsgreiða á heimilum hans í Manhattan í New York og í Flóría á árunum 2002 til 2005.



Konungsfjölskyldan hefur áður gefið út yfirlýsingu til stuðnings Andrésar prins vegna tengsla Epstein og hans. Árið 2015 sagðist kona að nafni Virginia Roberts hafa verið þvinguð til samræðis með Andrési er hún var sautján ára gömul í þrjú skipti, í London, í New York og einu sinni á einkaeyju Epstein í Karíba-hafinu. Konungsfjölskyldan þvertók fyrir að ásakanir Roberts ættu við rök að styðjast.


Tengdar fréttir

Epstein með nokkur beinbrot í hálsi

Sérfræðingar segja Washington Post að beinbrotin geti átt sér stað þegar fólk hengir sig en séu algengari þegar það er kyrkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×