Bíó og sjónvarp

Fyrsta sýnishornið frá ferð Rikka um Ameríku

Sylvía Hall skrifar
Frá ferð félaganna um Bandaríkin.
Frá ferð félaganna um Bandaríkin. Instagram
Þann 11. ágúst verða þættirnir Rikki fer til Ameríku frumsýndir á Stöð 2. Um er að ræða sex þátta seríu þar sem dagskrárgerðarmaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G, heimsækir áfangastaði Icelandair í Bandaríkjunum ásamt Auðunni Blöndal, sem er Íslendingum vel kunnugur.

Borgirnar sex eru Denver, Seattle, Portland, Orlando, Chicago og New York og má því segja að Rikki hafi verið að upplifa nýjan heim á skömmum tíma, enda hafði hann aldrei farið til Bandaríkjanna og hingað til haldið sig við Köben og Tenerife. Auddi segist hafa gengið með hugmyndina í þó nokkurn tíma eftir að hafa ferðast með Rikka áður.

„Ég hef ferðast tvisvar með Rikka áður til útlanda og ég hugsaði allan tímann að það þyrfti eiginlega að gera sjónvarpsþátt um þetta því að ferðast með honum er algjör veisla. Honum finnst allt svo spennandi og það er allt svo stórt.“

Auddi segist vera ánægður með útkomuna og er sannfærður að Íslendingar muni taka vel í Rikka, enda sé hann einn sá einlægasti og skemmtilegasti í bransanum.

Fékk forsmekkinn að föðurhlutverkinu í ferðalaginu

Auddi segir ferðalagið hafa gengið vel. Rikki sé góður ferðafélagi og þyki allt svo spennandi og skemmtilegt. Hann sé í rauninni til í að gera allt sem er í boði.

„Þetta var smá eins og að ferðast með spenntum krakka, sem var fín þjálfun fyrir mig fyrst ég er nú að verða pabbi og svona. Það var fínt að fá að ferðast með svona eldri krakka,“ segir Auddi sem á einmitt von á sínu fyrsta barni.

„Hann kallar alltaf: „VÁ, sjáðu hvað eru stórir bjórar hérna“ þó svo að það séu bara venjulegir bjórar. Hann miklar allt svo fyrir sér.“





Fyrsta borg félaganna var Denver í Coloradoríki og segir Auddi væntingastjórnun Rikka hafa farið út um þúfur strax í fyrstu borg.

„Hver borg var skemmtilegasta borg sem hann hafði farið til á ævi sinni. Hann var svo hræddur um að öll ferðalög með fjölskyldunni eftir hana yrðu „piece of shit“ og hann gaf henni 9,5 og svo fór þetta alltaf hækkandi því hver borg var alltaf besta borgin,“ segir Auddi.

„Hann trúði því ekki að það væri mini-bar á hótelinu með áfengi í, hann hafði aldrei séð það áður af því þeir voru alltaf tómir á Tenerife.“

Líkt og áður kom fram verða þættirnir frumsýndir þann 11. ágúst á Stöð 2. Hér að neðan má sjá stiklu fyrir þættina.


Tengdar fréttir

Sjáðu þegar Rikki G var steggjaður í listflugi

Útvarps og Sjónvarpsmaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason gekk í það heilaga seint á síðasta ári. Nú fyrr á árinu tóku félagar Ríkharðs upp á því að steggja vin sinn þrátt fyrir að brúðkaupið væri löngu liðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×