Sport

Látinn vegna áverka sem hann varð fyrir í hringnum á föstudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maxim Dadashev, 1990-2019.
Maxim Dadashev, 1990-2019. vísir/getty
Rússneski hnefaleikakappinn Maxim Dadashev er látinn vegna áverka sem hann varð fyrir í bardaga gegn Subriel Matias í veltivigt á föstudaginn.

Dadashev gekkst undir tveggja klukkustunda aðgerð vegna heilablæðingar og var svo haldið sofandi í öndunarvél.

Á laugardaginn tjáðu læknar á UM Prince George's sjúkrahúsinu í Maryland í Bandaríkjunum að Dadashev hafi orðið fyrir alvarlegum heilaskaða og í dag var svo greint frá því að hann væri látinn.

Dadashev fæddist í St. Pétursborg 30. september 1990 og var 28 ára þegar hann lést. Hann lætur eftir sig eiginkonu og son. Fyrir bardagann örlagaríka á föstudaginn hafði hann unnið alla 13 bardaga sína sem atvinnumaður.

Bardagi þeirra Dadashevs og Matias var afar harður. Þjálfari Dadashevs stöðvaði bardagann í 11. lotu. Hann þurfti hjálp til að komast út úr hringnum og kastaði upp áður en hann komst inn í búningsklefa. 

Dadashev var fluttur með hraði á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð þar sem læknar reyndu að létta á þrýstingu á hægri hlið heilans sem varð fyrir mestum skemmdum. Vonast var til að bólgan myndi hjaðna meðan honum var haldið sofandi og hann myndi ná sér. Það gerðist því miður ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×