Umfjöllun: Espanyol - Stjarnan 4-0│Stjörnumenn slegnir í rot í upphafi seinni hálfleiks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Þór Hauksson í baráttu við Sergi Darder.
Alex Þór Hauksson í baráttu við Sergi Darder. vísir/getty
Stjarnan tapaði 4-0 fyrir Espanyol í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á RCDE-vellinum í Barselóna í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik en Espanyol kláraði leikinn með þremur mörkum á ellefu mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Spánverjarnir bættu einu marki við áður en yfir lauk og eru svo gott sem komnir áfram í 3. umferðina.

Stjörnumenn byrjuðu með boltann en heimamenn voru fljótir að ná honum og héldu honum nánast út leikinn.

Espanyol komst samt lítt áleiðis gegn sterkri Stjörnuvörn í fyrri hálfleik. Fyrir utan skot frá Facundo Ferreyra sem Martin Rauschenberg henti sér fyrir sköpuðu heimamenn sér engin teljandi færi og gestirnir úr Garðabænum máttu vera ánægðir með stöðuna í hálfleik.

Espanyol setti hins vegar í annan gír eftir hlé. Boltinn gekk hraðar og fyrirgjafirnar voru betri. Eftir eina slíka frá Adrià Pedrosa kom Ferreyra Espanyol yfir með skalla á 49. mínútu. Átta mínútum síðar skoraði hann sitt annað mark með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Javi López og skalla Borja Iglesias.

Sá síðastnefndi skoraði svo þriðja mark Espanyol á 60. mínútu. Þrjú mörk á ellefu mínútna kafla og Stjörnumenn slegnir í rot.

Iglesis skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark Espanyol með föstu skoti eftir hælspyrnu Ferreyras. Lokatölur 4-0, Espanyol í vil.

Ferreyra skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.vísir/getty
Af hverju vann Espanyol?

Tímabilið á Spáni er ekki hafið og það mátti greina ryð í leik Espanyol í fyrri hálfleik. Heimamenn einokuðu boltann en gerðu lítið við hann og Stjarnan átti svar við öllum þeirra sóknaraðgerðum.

Það var þó alltaf ljóst að þetta yrði erfiðara fyrir Stjörnuna eftir því sem leið á leikinn enda voru Garðbæingar allan tímann í eltingarleik sem útheimti mikla orku.

Stjarnan átti sér aldrei viðreisnar von eftir að Ferreyra braut ísinn og Espanyol gekk á lagið, bætti þremur mörkum við og vann öruggan sigur í sínum fyrsta Evrópuleik gegn íslensku liði. Himinn og haf er á milli Espanyol og Stjörnunnar og það sást bersýnilega í seinni hálfleiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Espanyol er með flinka og vel spilandi miðjumenn. Framherjapar liðsins er hins vegar öflugt og kraftmikið; tvær klassískar níur ef svo má segja. Ferreyra og Iglesis létu til sín taka, skoruðu báðir tvö mörk og gáfu auk þess eina stoðsendingu hvor.

Bakverðir Espanyol, þeir López og Pedrosa, voru óþreytandi og lögðu báðir upp mark. Sá fyrrnefndi átti einnig þátt í öðru marki Espanyol.

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn voru í vörn í 90 mínútur og sóknir þeirra voru sárafáar. Þeir lágu mjög aftarlega og gekk erfiðlega að færa sig framar á völlinn. Garðbæingar áttu fáa spilkafla og töpuðu boltanum jafnan eftir 2-3 sendingar milli manna.

Hvað gerist næst?

Seinni leikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðbæ næsta fimmtudag.

Í millitíðinni, nánar tiltekið á mánudaginn, sækir Stjarnan HK heim í 14. umferð Pepsi Max-deildar karla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira