Innlent

Druslugangan gengin í níunda sinn í dag

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Druslugangan er gengin til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis.
Druslugangan er gengin til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis. Stöð 2/Einar
Druslugangan verður gengin í níunda sinn í dag, en gengið hefur verið árlega frá árinu 2011. Í ár verður engin krafa sett á stjórnvöld en barist verður fyrir hugarbreytingu samfélagsins.

Klukkan 14 verður lagt af stað frá Hallgrímskirkju og gengið að Austurvelli þar sem ræðuhöld fara fram. Að ræðum loknum verður boðið upp á tónlistaratriði.

„Druslugangan er svo frábært vopn og verkfræi til að sýna samstöðu, til þess að sýna baráttuvilja og það er bara svo ótrúlegt að labba með öllu þessu fólki og sjá og vita að þau trúa þér öll. Við trúum þolendum, við stöndum með þeim og við erum tilbúin að berjast gegn nauðgunarmenningu í samfélaginu,“ Sagði Helga Lind Mar, einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar.

Hún segir að í ár verði engin krafa sett á stjórnvöld en barist verði fyrir hugarfarsbreytingu samfélagsins.  

„Við virðumst einhvern veginn lifa í samfélagi þar sem okkur finnst sjálfsagt að það sé eðlilegur hluti af samfélaginu að kynferðisbrot séu svona ótrúlega víðfem og svona stór hluti af samfélaginu okkar en um leið og við sem samfélag segjum nei við því þá fara breytingarnar að gerast,“ sagði Helga Lind.

Síðustu ár hafa fimmtán til tuttugu þúsund manns mætt í gönguna og vonast Helga til að sjá sömu tölu í ár.

„Við viljum hvetja alla sem vilja berjast á móti nauðgunarmenningu að mæta og sýna samstöðu í dag,“ sagði Helga Lind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×