Innlent

Maður lést í flugi Icelandair til Chicago

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Um var að ræða flug FI855 frá Keflavík til Chicago. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Um var að ræða flug FI855 frá Keflavík til Chicago. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á sjötugsaldri lést í flugi Icelandair frá Keflavík til Chicago, FI855, í gær.

Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir að O‘Hare-alþjóðaflugvellinum vegna meðvitundarlauss manns upp úr hálf níu að staðartíma í gærkvöldi, að því er fram kemur í frétt NBC Chicago af málinu.

Reynt var að endurlífga manninn, sem hét Vo V. Thanh, með súrefnisgjöf, hjartahnoði og með hjálp stuðtækja, en allt kom fyrir ekki og var hann úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi um klukkutíma eftir að útkallið barst.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu staðfesti Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, þessar fregnir. Hún segir tvo lækna hafa verið um borð í vélinni og að þeir hafi aðstoðað áhöfn vélarinnar við að hlúa að manninum þangað til lent var á O‘Hare-flugvellinum.

Maðurinn 64 ára og var íbúi bæjarins Wilmington, sem er rétt fyrir utan Chicago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×