Viðskipti innlent

Nýr yfirmaður Medis og breytingar á yfirstjórn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Jo Kim hefur verið ráðin yfirmaður lyfjasölurisans Medis, dótturfélags Actavis, en hún var áður yfir starfsemi Medis í Ástralíu. Hún flytur frá skrifstofu Medis í Sydney til höfuðstöðvanna í Hafnarfirði seinna á árinu. Kim hefur starfað í lyfjageiranum í 25 ár og gekk til liðs við Medis árið 2013.

Þá hefur Jónína Þorbjörg Guðmundsdóttir látið af störfum sem framkvæmdastjóri hjá Medis en hún hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2003. Jo Kim, Hildur Ragnars og Ágúst Helgi Leósson skipa nú framkvæmdastjórn Medis.

Medis selur lyf og lyfjahugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja um allan heim. Móðurfélagið Teva reyndi sem kunnugt er að selja fyrirtækið fyrir um hálfan milljarð dala og átti í viðræðum við lyfjafyrirtæki í Svíþjóð og Brasilíu. Söluferlinu var hætt í desember á síðasta ári og samhliða því lét Valur Ragnarsson af störfum sem forstjóri Medis.

Medis velti 298 milljónum evra á árinu 2017, eða sem nemur um 42 milljörðum íslenskra króna, og hagnaðist um 13,5 milljónir evra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×