Erlent

Skóla­stjóri var rekinn eftir um­mæli um hel­förina

Sylvía Hall skrifar
Skólastjórinn sagði ekki alla vera sammála um helförina.
Skólastjórinn sagði ekki alla vera sammála um helförina. Vísir/Getty
William Latson, skólastjóri í Flórídaríki í Bandaríkjunum, missti starf sitt eftir að hafa sagst ekki geta kennt um helförina þar sem ekki allir væru sammála um „tilvist“ hennar. Opinberum skólum í ríkinu er skylt að kenna um seinni heimsstyrjöldina og atburði hennar.

„Ég get ekki sagt að kennsla um helförina sé byggð á staðreyndum  og sé sögulegur atburður því sem starfsmaður skólakerfisins er ég ekki í stöðu til þess,“ sagði Latson í svari til móður sem spurði hvernig kennslu um helförina yrði háttað. Hann sagðist þurfa að vera „pólitískt hlutlaus“ um þetta tiltekna málefni.

Svör skólastjórans voru gerð opinber í the Palm Beach Post á föstudag en þar kemur einnig fram að skólastjórinn rökstuddi svar sitt með þeirri fullyrðingu að „ekki allir foreldrar hefðu sömu sannfæringu“. Skólinn byði hins vegar upp á kennslu um helförina, þar á meðal á árlegri samkomu, en það væri ekki hægt að „pranga slíku upp á einstaklinga“.

Helförin hluti af námskrá opinberra skóla

Samkvæmt námskrá sem er í gildi í ríkinu er skólum skylt að segja frá helförinni í námsefni sínu, atburðurinn sé vendipunktur í mannkynssögunni og er kennurum sagt að kenna hana til þess að skapa tækifæri fyrir nemendur að rannsaka hegðun mannfólks og fordóma sem búa innra með því.

„Kerfisbundin, skipulögð útrýming evrópska gyðinga og annarra hópa af hálfu nasista í Þýskalandi, atburður sem markaði þáttaskil í mannkynssögunni, skal vera kennd á þann hátt að það leiði til rannsóknar á mannlegri hegðun, skilnings á afleiðingum fordóma, rasisma og staðalímyndum og athugunar á því hvað það merkir að vera ábyrg og tillitsöm manneskja í þeim tilgangi að hvetja til umburðarlyndis gagnvart fjölbreytileikanum í fjölbreyttu samfélagi og til þess að næra og vernda lýðræðisleg gildi og stofnanir,“ segir í námskránni.

Eftir birtingu tölvupósta skólastjórans fór af stað undirskriftasöfnun þar sem kallað var eftir því að hann myndi segja af sér. Hátt í tíu þúsund manns skrifuðu undir áður en honum var sagt upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×