Erlent

17 ára stunginn til bana fyrir að spila rapptónlist

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Búið er að setja upp lítinn minnisvarða um Al-Amin á staðnum þar sem ráðist var á hann.
Búið er að setja upp lítinn minnisvarða um Al-Amin á staðnum þar sem ráðist var á hann.
Morð á 17 ára þeldökkum dreng í Arizona í Bandaríkjunum hefur vakið hörð viðbrögð þar í landi. Drengurinn var stunginn af manni sem segir sér hafa verið ógnað af rapptónlist sem drengurinn var að spila.

Elijah Al-Amin var stunginn fyrir utan verslun í úthverfi Peoria-borgar í Arizona. 27 ára gamall hvítur maður að nafni Michael Adams hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morðið. Hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi eða dauðarefsingu. Réttað verður yfir honum þann 15. júlí næstkomandi.

Adams viðurkenndi við skýrslutöku að honum hafi þótt rapptónlistin sem Al-Amin spilaði í hátalara ógnandi.

Þegar atvikið átti sér stað komu viðbragðsaðilar að Al-Amin þar sem hann lá við eldsneytisdælur kjörbúðarinnar Circle K. Hann var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann lést. Þó nokkur sjónarvitni voru að því þegar Al-Amin var stunginn í háls og bak.

Stuttu eftir að tilkynnt var um árásina fannst Adams í grennd við verslunina með vasahníf á sér og blóð á klæðum sínum. Adams var nýkominn úr fangelsi þegar árásin varð, en fram til 2. júlí hafði hann afplánað 13 mánaða fangelsisdóm fyrir alvarlega líkamsárás.

Al-Amin var 17 ára þegar hann var myrtur.Vísir/AP
Á mánudaginn var Al-Amin borinn til grafar en fyrir útförina var haldin stutt tilbeiðslustund í miðstöð múslimasamfélagsins í Tempe, sem er borg í nágrenni Peoria.

Málið áberandi á netinu

Málið hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum vestanhafs en myllumerkið #JusticeForElijah (#RéttlætiFyrirElijah) hefur farið á talsvert flug á Twitter.

Cory Booker, einn þeirra 23 sem sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári, tísti um málið í fyrradag.

„Enn eitt barna okkar myrt á hrottafenginn og tilefnislausan hátt. Dómsmálaráðuneytið verður að rannsaka þennan hatursglæp strax. Hvíl í friði Elijah. #RéttlætiFyrirElijah“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×